Erlent

Vatíkanið fordæmir hómófóbísk ummæli kaþólskrar útvarpsstöðvar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Frans páfi
Frans páfi Vísir/Getty
Vatíkanið hefur fordæmt ummæli kaþólskar útvarpsstöðvar um að nýlegir jarðskjálftar í Ítalíu væru „refsing guðs“ vegna giftinga samkynhneigðra.

Ummælin voru send út á útvarpsstöðinni Radio Maria og hefur Vatíkanið sagt þau „móðgandi og hneykslanleg.“

Dóminíski munkurinn John Cavalcoli sagði að jarðskjálftar, líkt og þeir í ágúst sem urðu nær 300 manns að bana, væru afleiðing synda mannanna. Hann sagði að þar á meðal væru lög sem heimila samkynhneigðum hjónum að staðfesta sambúð sína, sem samþykkt voru á Ítalíu í maí síðastliðnum.

Vatíkanið segir ummælin heiðin og að þau hafi ekkert með kaþólska trú að gera.

„Þessi ummæli eru móðgandi fyrir trúaða og hneykslanleg fyrir þá sem ekki trúa,“ sagði Monsignor Angelo Becciu, sem fer með utanríkismál Vatíkansins og er einn nánasti samstarfsmaður Frans páfa.

Becciu sagði að Radio Maria, sem áður hefur verið gagnrýnt fyrir gyðingahatur, þurfi að tempra orðalag sitt og samræmast gildum kirkjunnar um miskunnsemi.

Radio Maria hefur birt yfirlýsingu á vefsíðu sinni, þar sem segir að ummælin endurspegli ekki afstöðu stöðvarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×