Körfubolti

Þórir með þrefalda tvennu í stórsigri KR | Fjölnismenn með öruggan sigur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lærisveinar Finns áttu ekki í vandræðum gegn Gnúpverjum.
Lærisveinar Finns áttu ekki í vandræðum gegn Gnúpverjum. Vísir/Anton
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Tóti Túrbó, fór á kostum í öruggum 111-53 sigri KR á Gnúpverjum í 32-liða úrslitum Maltbikarsins í körfubolta í kvöld en á sama tíma komst Fjölnir í 16-liða úrslit eftir sigur á ÍA.

KR var ekkert í því að vanmeta Gnúpverja og náði strax 15-0 forskoti á fyrstu mínútunum og leiddi 27-9 að fyrsta leikhluta loknum. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, gat dreift álaginu vel og fengu fjórtán leikmenn KR að spreyta sig í kvöld.

KR leiddi 54-22 í hálfleik og sigldi sigrinum örugglega heim en Þórir var manna bestur með 32 stig, 12 fráköst og 12 stoðsendingar í leiknum en Snorri Hrafnkelsson bætti við nítján stigum.

Í liði Gnúpverja var Tómas Steindórsson stigahæstur með 18 stig ásamt því að taka 8 fráköst en Þórir Sigvaldason kom næstur með níu stig.

Í seinni leik dagsins unnu Fjölnismenn öruggan 23 stiga sigur á ÍA á Akranesi 90-67 en Fjölnismenn náðu strax sextán stiga forskoti í fyrri hálfleik og hleyptu Skagamönnum aldrei inn í leikinn á ný.

Collin Anthony Pryor fór fyrir liði Fjölnis með 26 stig, 14 fráköst og átta fráköst en í liði ÍA var Derek Daniel Shouse með tvöfalda tvennu með 29 stig og 10 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×