Körfubolti

Njarðvíkingar mæta með leynigest í Keflavík í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörtur Hrafn Einarsson.
Hjörtur Hrafn Einarsson. Vísir/Vilhelm
Hjörtur Hrafn Einarsson snýr aftur í lið Njarðvíkur í kvöld þegar liðið heimsækir nágranna sína í Keflavík í 32 liða úrslitum Maltbikarsins í körfubolta. Þessi kröftugi framherji mun styrkja liðið í baráttunni undir körfunni.

Hjörtur Hrafn hefur ekkert spilað með Njarðvíkurliðinu á þessu tímabili og það leit út fyrir að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna. Hann er samt bara 27 ára gamall og því vonuðust Njarðvíkingar alltaf til þess að hann myndi snúa aftur. Von þeirra hefur nú ræst.

Njarðvíkingar tilkynntu það á fésbókarsíðu sinni í kvöld að Hjörtur Hrafn verði aftur í búning í þessum leik.

Hjörtur Hrafn er eini leikmaður Njarðvíkur sem var í síðasta Íslandsmeistaraliði félagsins árið 2006. Hann var þá að stíga sín fyrstu spor með meistaraflokki og hafði spilað með liðinu samfellt þar til í haust. Hjörtur Hrafn var með 6,0 stig og 3,2 fráköst að meðaltali með liðinu á síðustu leiktíð.

Njarðvíkingar eru með öfluga bakverðir en vantar meiri breidd nálægt körfunni. Þrátt fyrir að vera enginn risi þá er Hjörtur Hrafn nautsterkur og öflugur í baráttunni undir körfunni.

„Við bjóðum Hjört velkominn aftur á parketið en hans kraftar munu nýtast einkar vel í þeirri baráttu sem framundan er,“ segir í tilkynningu Njarðvíkinga.

Það verður fylgst með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér inn á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×