Íslenski boltinn

Willum Þór heldur áfram með KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Willum Þór Þórsson kom KR í Evrópukeppni með sögulegri stigasöfnun.
Willum Þór Þórsson kom KR í Evrópukeppni með sögulegri stigasöfnun. vísir/vilhelm
Willum Þór Þórsson mun halda áfram að þjálfa lið KR í Pepsi-deild karla í fótbolta en það verður formlega tilkynnt á blaðamannafundi á morgun, samkvæmt heimildum íþróttadeildar.

KR þurfti að bíða með að staðfesta ráðninguna þar sem Willum var að bjóða sig fram til áframhaldandi setu á Alþingi en ljóst er eftir kosningar næturinnar að hann dettur út af þingi.

Sjá einnig:Söguleg stigasöfnun Willums

Willum var í öðru sæti í suðvesturkjördæmi fyrir Framsóknarflokkinn en þar náðu Framsóknarmenn aðeins einum manni inn. Willum hefur setið á þingi síðan 2013.

Willum tók við KR-liðinu í erfiðri stöðu í sumar en reif liðið upp svo um munaði. Söguleg stigasöfnun hans skilaði KR í þriðja sæti deildarinnar en með því náði liðið Evrópusæti sem enginn bjóst við að væri hægt þegar Bjarni Guðjónsson var látinn fara.

Undir stjórn Willums vann liðið níu leiki af þrettán, gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins tveimur. Hann safnaði 29 stigum og bætti með því stigamet Rúnars Kristinssonar frá 2010 en KR fékk þá 25 stig eftir að Rúnar tók við af Loga Ólafssyni um miðjan júlí.

Samkvæmt heimildum Vísis verður líklega sama þjálfarateymi áfram í vesturbænum en Arnar Gunnlaugsson mun að öllum líkindum halda áfram sem aðstoðarþjálfari og Henrik Bödker verður sömuleiðis áfram markvarðaþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×