Körfubolti

Daníel eftir skellinn í Síkinu: „Þetta var mjög absúrd“

Ólafur Haukur Tómasson í Síkinu á Sauðárkróki skrifar
Daníel Guðni byrjar 1-3 með Njarðvík.
Daníel Guðni byrjar 1-3 með Njarðvík. vísir/vilhelm
„Það fór allt úrskeiðis hjá okkur,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir stórtapið gegn Tindastól í Síkinu í kvöld.

„Það gekk ekkert upp hjá okkur. Þeir ýttu okkur út úr öllu sem við ætluðum að gera sóknarlega og við vorum ekki að bregðast við því eins og við áttum að gera. Við gripum boltann alltof langt frá þeim stöðum sem við eigum að grípa hann, nýttum okkur ekki að þeir yfirdekkuðu okkur og við vorum alveg út í þessum leik,“ sagði Daníel.

Njarðvíkingar lentu undir á öllum sviðum leiksins í kvöld og þar á meðal í fráköstum en Stólarnir áttu nær alla lausa bolta í leiknum. Sú staðreynd fór ekki vel í Daníel.

„Það virðist ekki skipta miklu máli hvað við reynum að brýna á að það þurfi að stíga þá út því þeir taka jafn mörg sóknarfráköst og við tökum varnarfráköst í leiknum. Þetta var mjög absúrd og ekkert lið vinnur leik þannig,“ sagði hann.

Stefan Bonneau átti stórleik í tapi Njarðvíkur gegn Stjörnunni í síðustu umferð en hann náði sér ekki á strik í kvöld og spilaði frekar lítið, af hverju var það?

„Hann náði sér ekki á strik hérna í kvöld. Ég hélt honum bara frá fleiri mínútum í kvöld og ætluðum ekkert of geyst með hann því við vorum að tapa með þrjátíu, fjörtíu stigum og þarf ekki að láta hann hlaupa af sér öll horn,“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×