Körfubolti

Hrafn um brottrekstur Reggies Dupree: Þetta leiðindaatvik hjálpaði til

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hrafn hefur stýrt Stjörnunni til sigurs í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins.
Hrafn hefur stýrt Stjörnunni til sigurs í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins. vísir/ernir
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með spilamennsku sinna manna í seinni hálfleik í sigrinum á Keflavík í kvöld. Hann var ekki jafn hrifinn af frammistöðu Garðbæinga í fyrri hálfleiknum.

„Þetta var saga tveggja hálfleikja. Ég var ofboðslega ósáttur við fyrri hálfleikinn og hvernig við komum inn í hann. Við vissum alveg að Keflavík myndi láta okkur hafa fyrir hlutunum og við ætluðum að taka vel á móti. En núll liðsvillur og 10 tapaðir boltar í 1. leikhluta benda til þess að menn hafi ekki verið nógu sterkir andlega og við þurfum að greina af hverju það var,“ sagði Hrafn eftir leik.

Keflvíkingar héldu í við Stjörnumenn í fyrri hálfleik en það má segja að vendipunktur leiksins hafi verið þegar Reggie Dupree lét henda sér út úr húsi fyrir að kasta svitabandi Justins Shouse upp í stúku. Hrafn segir að brottreksturinn hafi haft sitt að segja fyrir bæði lið.

„Þetta leiðindaatvik hjálpaði til. Manni finnst ekkert gaman þegar eitthvað slíkt hjálpar manni í baráttunni,“ sagði Hrafn en atvikið má sjá hér að neðan.

Þjálfarinn er að vonum sáttur með byrjunina á tímabilinu, enda eru Stjörnumenn með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir. Hann segir samt að liðið geti gert betur.

„Við getum betur og verðum að vinna eftir einhvers konar áætlun. Ég veit ekki alveg hvert maður færi ef maður spilaði á hæsta leveli í fyrstu fjórum umferðunum. En það er gott að sjá að stigin dreifast vel og mismunandi menn stíga upp á mismunandi stundum,“ sagði Hrafn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×