Innlent

Formaður kjörstjórnar í Norðausturkjördæmi: "Lítur vel út með færðina“

Atli Ísleifsson skrifar
Formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi segir að það séu 44 kjördeildir í kjördæminu.
Formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi segir að það séu 44 kjördeildir í kjördæminu. Vísir/Pjetur
„Þetta er náttúrulega mjög stórt kjördæmi og að ýmsu sem þarf að huga. Það er bara talið á Akureyri og það lítur vel út með færðina. Það er búið að fljúga til Grímseyjar. Kjörfundur er búinn þar, lauk fyrir hádegi og kjörgögnin voru komin hingað til Akureyrar rétt eftir hádegi,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi.

Hann segir að það hafi orðið minna úr þessu veðri en spáin hafi gefið til kynna á fimmtudaginn.

Gestur segir að það séu 44 kjördeildir í kjördæminu, sú syðsta á Djúpavogi og sú nyrsta í Grímsey. Siglufjörður er svo nyrst ef litið er til strandlengjunnar sjálfar.

Gestur segir kjörgögn á Djúpavogi og annars staðar á Austfjörðum verði ekið til Egilsstaða og flogið þaðan til Akureyrar. „Frá Vopnafirði safnar lögreglan þessu saman og kemur til Húsavíkur og svo kemur Húsavíkurlögreglan þessu til okkar. Lögreglan tekur því virkan þátt í framkvæmdinni.“

Gestur segir að yfirkjörstjórnin verði með fjörutíu manns sem taki þátt í talningunni sjálfri sem hefst þegar kjörstöðum lokar klukkan 22.

„Síðan er fimm manna kjörstjórn með einn starfsmann. Við erum því 46 sem komum að þessari talningu. Við notuðum Póstinn til að koma gögnunum um kjördæmið en njótum liðsinnis lögreglunnar við að safna þessu saman,“ segir Gestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×