Skoðun

90% stúlkur?

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Tvær 15 ára dætur mínar eru að lesa fyrir próf. Þær leggja hart að sér, vitandi að það er leiðin til þess að komast inn í framhaldsskóla að eigin vali á næsta ári. Þær vita líka að vinsælustu framhaldsskólarnir eru með kynjakvóta. Stelpur þurfa að hafa hærri einkunnir en strákar til að komast inn. Þar sjá menn verðmætið í því að jafna stöðuna.

Dætur mínar og jafnöldrur þeirra hafa hins vegar fæstar áttað sig á því að þegar þær koma út á vinnumarkaðinn að nokkrum árum liðnum bíður þeirra að óbreyttu heimur þar sem framlag þeirra er metið 10% lægra en framlag strákanna.

Íslenskt samfélag þarf á því að halda að við búum svo um hnútana að ungar stúlkur þurfi ekki að sætta sig við framtíð þar sem þær eru verðlagðar sem 90%. Við verðum að útrýma þessum óverjandi kynbundna launamun sem varpar risaskugga á þann góða árangur sem hefur náðst í jafnréttismálum hér á landi.

Ég er stolt af því að hafa, ásamt félögum mínum í Viðreisn, átt þátt í að kynna tæki til þess að rétta hér af kúrsinn svo um munar. Við munum láta það verða eitt af okkar fyrstu verkum á þingi að leggja fram þingmál sem mælir fyrir um að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn þurfi að gangast árlega undir jafnlaunavottun sem yrði framkvæmd samhliða gerð ársreikninga. Slík jafnlaunavottun er hlutlaus staðfesting þess að hjá viðkomandi fyrirtæki eða stofnun er ekki kynbundinn launamunur.

Fyrirtæki með jafnlaunavottun eru eftirsóknarverðir vinnustaðir. Önnur fyrirtæki þurfa að hysja upp um sig ef þau ætla að vera samkeppnishæf. Starfsfólk veit að vottunin gefur fyrirheit um að laun eru greidd út frá málefnalegum forsendum og að allt starfsfólk er metið að verðleikum.

Það styttist í kvennafrídaginn. Er ekki upplagt að nota tækifærið til að minna á að við erum öll 100%?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×