Enski boltinn

„Bannið blessun í dulargervi“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tímabundið keppnisbann Tyson Fury frá hnefaleikum gæti verið blessun í dulargervi að mati frænda hans og þjálfara, Peter Fury.

Tyson Fury gaf frá sér WBO og WBA-heimsmeistarabeltin í þungavigt í gær skömmu áður en breska hnefaleikasambandið úrskurðaði hann í tímabundið bann frá íþróttinni.

Fury varð heimsmeistari í þungavigt á síðasta ári þegar hann vann Wladimir Klitschko en síðan þá hefur hann ekki barist og tvisvar sinnum hætt við titilvörn gegn Úkraínumannnum þegar búið var að skipuleggja bardagann.

Sjá einnig:Kókaínið og þunglyndið hafði betur gegn Fury sem gefur frá sér beltin

Bretinn, sem er 28 ára gamall, er veikur maður en hann viðurkenndi kókaínneyslu í viðtali við Rolling Stone fyrir nokkrum vikum. Kókaínið notar hann til að hjálpa sér að berjast við þunglyndi.

„Hann gengst við því að hann á við vandamál að stríða og nú byrjar endurhæfingin,“ segir Peter Fury í viðtali við BBC. „Kannski er þetta bann blessun í dulargervi því hann fær tíma til að ná sér góðum.“

Peter Fury telur að frændi sinn muni snúa aftur í hringinn í apríl og sér hann verða fyrirmynd ungs fólks sem glímir við þunglyndi.

„Þetta sýnir bara hvað þessi sjúkdómur getur haft mikil áhrif á líf þitt sama hver þú ert. Ef þunglyndi getur haft svona mikil áhrif á heimsmeistarann í þungavigt er þetta alvöru vandamál,“ segir Peter Fury.

Í spilaranum hér að ofan má sjá frétt um veikindi Tyson Fury og keppnisbannið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Box

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×