Fótbolti

Glódís Perla á bekknum í sigri Eskilstuna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir. vísir/eyþór
Glódís Perla Viggósdóttir sat á bekknum þegar lið hennar Eskilstuna vann góðan útisigur í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Glódís hefur átt fast sæti í byrjunarliðinu hjá Eskilstuna á tímabilinu en sat á bekknum í dag. Liðið mætti FC Rosengård á útivelli en lið Rosengård sló Breiðablik úr keppni í Meistaradeild Evrópu í vikunni.

Rosengård átti möguleika á að halda sér í titilbaráttu fyrir þennan leik en var þó í erfiðri stöðu, fimm stigum á eftir Linköping. Eskilstuna lét það þó ekkert hafa áhrif á sig og komst í 2-0 með mörkum frá Mimmi Larsson og Marija Banusic.

Rosengård náði að minnka muninn í síðari hálfleik en lengra komust þær ekki og góður sigur Eskilstuna staðreynd. Þar sem Linköping vann sigur í sínum leik tryggðu þær sér meistaratitilinn og eru með átta stiga forystu í deildinni þegar tvær umferðir eru eftir.

Eskiilstuna er í 4.sæti með 35 stig, stigi á eftir Piteå sem er í þriðja sæti. Liðin eru þó töluvert langt á eftir Rosengård í töflunni.

Katrín Ómarsdóttir var í byrjunarliði Doncaster Belles sem mætti Notts County í ensku deildinni. Doncaster komst yfir snemma í leiknum en Notts County náði að svara með tveimur mörkum og tryggja sér 2-1 sigur.

Doncaster hefur tapað öllum leikjum sínum í deildinni til þessa og er langneðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×