Skoðun

Foreldrum mismunað

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Það er jákvætt að loks sé verið að hækka þakið á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði svo einhverju nemur, en sú aðferð að hækka greiðslur á einu bretti um 130 þúsund og miða þá breytingu við ákveðinn dag er vægast sagt furðuleg. Það hlýtur alltaf að vera meginmarkmið stjórnvalda að tryggja eins og kostur er jafnræði meðal þegna landsins. Það er ein forsenda þess að þokkaleg sátt ríki í samfélaginu. Þess vegna er þessi ráðstöfun svo óskiljanleg.

Hvaða sanngirni er í því að foreldri barns sem fæðist 15. október fái mörg hundruð þúsund hærri greiðslur úr sameiginlegum sjóðum en ef barnið hefði fæðst degi fyrr? Ég hef einhvers staðar séð því svarað að svona hafi þetta alltaf verið gert en það er auðvitað ekkert svar. Aðferðin verður síst betri þótt henni hafi áður verið beitt.

Ég gef mér að ríkisstjórnin hafi á upphafsmetrum sínum gert áætlun um það hvenær og hversu mikið ætti að hækka greiðslur úr fæðingarorlofssjóði á kjörtímabilinu þótt ekkert sé fjallað um það í stjórnarsáttmálanum. Svona ákvörðun er auðvitað ekki tekin á hlaupum og ég ímynda mér að það sé auðvitað bara helber tilviljun að þessi mikla hækkun komi til tveimur vikum fyrir kosningar.

Þess vegna væri gott að þeir sem bera ábyrgð á málinu myndu útskýra hvers vegna greiðslur hafi ekki verið hækkaðar jafnt og þétt yfir kjörtímabilið? Það væri að mínu mati eðlilegri leið og sanngjarnari. Fólk á aldrei að fá á tilfinninguna að ákvarðanir stjórnvalda mismuni fólki á tilviljanakenndan hátt. Það er þó tilfellið hér því miður.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×