Íslenski boltinn

Ásgeir: Nú reynir á Fylkishjartað

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ásgeir í viðtali hjá Stöð 2 á dögunum.
Ásgeir í viðtali hjá Stöð 2 á dögunum. vísir/stefán
„Maður reynir að bera sig vel,“ segir Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, en helgin var erfið fyrir hann og hans félag enda féll Fylkir úr Pepsi-deild karla.

„Framhaldið er alveg óráðið en við munum fara í þessi mál núna í vikunni. Það er verk að vinna og nú þurfa allir að fara upp með hökuna,“ segir Ásgeir varðandi framhaldið hjá Árbæingum. „Við munum setjast niður með öllum. Bæði leikmönnum og þjálfurum og teikna nýtt skipurit.“

Það hefur verið talað um að Ásgeir og félagar í stjórn Fylkis ætli sér að víkja en ekki er víst að af því verði.

„Við erum opnir fyrir því að hleypa nýjum mönnum að en þeir bíða líklega ekki í röðum. Við sem sitjum stöndum okkar plikt áfram ef það eru ekki menn klárir að taka við en það er alls ekki þannig að við ætlum að standa í vegi fyrir nýju fólki sem er áhugasamt að koma inn,“ segir Ásgeir sem er klár í að vera áfram en hvað með leikmenn félagsins?

„Við erum að vonast til þess að leikmenn taki þátt áfram. Það má alveg búast við því að það verði kroppað í okkar menn en nú reynir á uppalda leikmenn. Það reynir á Fylkishjartað og ég vona að við þjöppum okkur allir saman.“

Ásgeir segir að ekkert hafi verið rætt við Hermann Hreiðarsson þjálfara um framhaldið en það verði gert í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×