Innlent

Könnun MMR: 16 prósent fylgjandi búvörusamningum

Atli Ísleifsson skrifar
Úr þingsal.
Úr þingsal. Vísir
16,3 prósent aðspurðra kváðust fylgjandi búvörusamningum sem samþykktir voru á Alþingi um miðjan mánuðinn samkvæmt nýrri könnun MMR. 62,4 prósent svarenda sögðust vera andvígir samningunum.

Í frétt MMR um könnunina kemur fram að eldri aldurshópar voru líklegri til að vera fylgjandi búvörusamningunum. „Sem dæmi sögðust 31% þeirra sem eru 68 ára eða eldri vera fylgjandi samningunum á meðan einungis 8% þeirra sem eru 29 ára eða yngri sögðust vera fylgjandi búvörusamningunum.

Einnig munaði miklu þegar afstaða var skoðuð eftir búsetu, en 28% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni sögðust vera fylgjandi búvörusamningunum en einungis 10% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu. 

Þegar afstaða er skoðuð eftir stjórnmálaflokkum sést að stuðningsfólk Framsóknar var lang líklegast til að vera fylgjandi búvörusamningunum, en 55% stuðningsmanna flokksins kváðust fylgjandi samningunum. Þau sem sögðust styðja Samfylkinguna, Bjarta framtíð, Pírata og Viðreisn voru hins vegar ólíklegust til að vera fylgjandi samningunum, en yfir 75% stuðningsfólks þessara flokka sögðsust andvíg samningunum,“ segir í fréttinni.

Könnunin var framkvæmd dagana 20. til 26. september 2016 og var heildarfjöldi svarenda 985 einstaklingar, 18 ára og eldri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×