Íslenski boltinn

Fjórar vafasamar ákvarðanir dómarans í Árbænum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pétur Guðmundsson, dómari leiks Fylkis og Ólsara í Pepsi-deild karla í fótbolta í gær, átti ekki góðan dag en nýliðarnir úr Ólafsvík voru mjög ósáttir við frammistöðu hans.

Pétur gaf Fylkismönnm vítaspyrnu í seinni hálfleik þegar Sito féll í teignum við litla snertingu. „Þetta er mjög soft,“ sagði Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports, í Pepsi-mörkunum í gærkvöldi.

Ólsarar vildu fá víti hinum megin þegar Pape Mamadou Faye var felldur innan teigs. Pétur dómari sá brotið og dæmdi á það en færði það út fyrir teiginn.

„Þetta er klárlega fyrir innan þó hann detti út úr teignum. Þetta hefur verið saga Ólsarana að undanförnu. Þeir hafa ekki fengið þessar ákvarðanir með sér,“ sagði Hjörvar en skömmu síðar fékk Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkis, boltann í höndina innan teigs en aftur sluppu heimamenn.

„Þetta er engin spurning. Hann er í frábærri stöðu til að sjá þetta en metur þetta kannski sem svo að það sé ekki ásetningur í þessu,“ sagði Hjörvar.

Fylkismenn fengu svo aðra vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Emir Dokara braut á Víði Þorvarðarsyni. Ekki bara virðist snertingin ekki mikil heldur þá virðist brotið eiga sér stað fyrir utan teig.

„Ég ætla ekki að ræða þetta, þetta er orðið fyndið,“ sagði Ejub Purisevic, þjálfari Ólsara, svekktur eftir leikinn. „Ég hef reynt einu sinni eða tvisvar að benda á og það varð allt vitlaust. Ég er sorgmæddur en ætla ekki að ræða þessi mál.“

Alla umræðuna úr Pepsi-mörkunum má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Hermann: Mér er drullusama

"Þetta eru frábær þrjú stig, lífsnauðsynlega. Við vitum það allir og vissum fyrir leikinn,“ sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari Fylkis eftir 2-1 sigurinn á Víkingi Ólafsvík í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×