Endalaus olía Stefán Pálsson skrifar 4. september 2016 10:00 Olíufélög hafa varið óhemjumiklu fé í rannsóknir og tækniþróun með það að markmiði að finna og nýta jarðolíu á sífellt afskekktari svæðum og við erfiðari aðstæður. Getty Reglulega berast fregnir af olíuleit á Drekasvæðinu langt norðaustur af Íslandi og láta sumir sig dreyma um svimandi olíugróða innan fáeinna ára eða áratuga. Ekki er langt síðan hugmyndin um olíuvinnslu í miðju Norður-Íshafinu hefði þótt fráleit, ekki endilega út af umhverfissjónarmiðum heldur fremur vegna kostnaðar og tæknilegra örðugleika. Olíufélög hafa varið óhemjumiklu fé í rannsóknir og tækniþróun með það að markmiði að finna og nýta jarðolíu á sífellt afskekktari svæðum og við erfiðari aðstæður. Kveikjan að því eru spádómar um að vinnanlegar olíulindir verði senn á þrotum. Spádómar af þessu tagi eru raunar ekki nýir af nálinni. Þegar árið 1919 spáði yfirmaður bandarísku jarðfræðistofnunarinnar að olíuframleiðsla í landinu myndi ná hámarki innan þriggja ára, en eftir það færi að ganga hratt á forðann. Eftir 1950 fóru vísindamenn með kerfisbundnum hætti að reyna að reikna út olíubirgðir heimsins og áætla út frá því hvenær toppnum í olíuvinnslu yrði náð og hvenær olían yrði uppurin. Margoft hefur orðið að endurskoða spádóma þessa þar sem þeir hafa ekki gengið eftir. Skýringin er tvíþætt. Nýjar olíulindir hafa fundist í sífellu og betri tækni hefur gert það að verkum að unnt er að vinna olíu víðar, bora dýpra eða nýta betur einstakar olíulindir. Þá verður að hafa í huga að áætlanir um olíuforðann hafa ætíð miðast við þá olíu sem hagkvæmt sé að vinna, en skilgreiningar á því hvað teljist hagkvæmt hljóta alltaf að fylgja verði og eftirspurn. Spádómar um olíuþurrð innan fárra áratuga voru lengi vel taldir boða ótíðindi fyrir mannkyn. Þau sjónarmið hafa þó nokkuð breyst í seinni tíð vegna hættunnar af loftslagsbreytingum vegna bruna á jarðefnaeldsneyti. Því eru ýmsir sem telja það ágætar fréttir ef olían klárast undir fótum okkar. Hvað sem þeim vangaveltum líður er ljóst að við getum ekki dælt upp olíu út í það óendanlega. Eyðist það sem af er tekið – eða hvað? Reyndar eru til kenningar sem ganga í aðra átt. Samkvæmt þeim eru olíubirgðir heimsins nánast ótæmandi og þær má finna miklu víðar en nokkurn óraði fyrir. Kenningar þessar eru jaðarhugmyndir í vísindasamfélaginu og njóta varla stuðnings nokkurra viðurkenndra vísindamanna á sviði olíurannsókna. En þrátt fyrir það – og jafnvel einmitt þess vegna – getur verið áhugavert að skoða þær með gleraugum vísindasagnfræðinnar. Að ofan eða neðan? Allir skólakrakkar læra hina viðteknu kenningu um hvernig jarðolía verður til. Í nokkuð einfölduðu máli gengur hún út á að rotnaðar lífveruleifar, einkum plöntur og sjávarþörungar, grafist undir jarðlögum. Þar verða þær fyrir áhrifum hita og þrýstings í milljónir ára og breytast þannig í kröftugt eldsneyti. Þetta ferli getur ekki átt sér stað hvar sem er, heldur einungis við sérstakar jarðfræðilegar aðstæður sem gera það að verkum að hinar lífrænu leifar ná að grafast djúpt í jörðu. Jarðvísindamenn sem sérhæfa sig í olíuleit þurfa því að gera sér í hugarlund margra milljóna ára þróunarferla í náttúrunni til að reikna út líklegar olíulindir. Þeir útreikningar byggja oft á takmörkuðum vísbendingum. Á meðan við getum notað kröftuga sjónauka til að rannsaka stjörnur í órafjarlægð eigum við bágt með að kanna hvað gerist ofan í jörðinni, þar sem við rétt náum að kroppa í ysta hluta jarðskorpunnar. Þessi kenning er sannfærandi og leysti af hólmi eldri hugmyndir sem gerðu ráð fyrir að olía yrði til neðanjarðar úr kolefnissamböndum sem þar væri að finna. Meðal þeirra sem settu fram slíkar skýringar var rússneski efnafræðingurinn Mendeljéff á seinni hluta nítjándu aldar, en hann er kunnastur í dag sem faðir lotukerfis efnafræðinnar yfir frumefnin. Mendeljéff var einn af risum rússneskra raunvísinda og mögulega höfðu kenningar hans sitt að segja um að nokkrir sovéskir jarðvísindamenn hófu um miðja síðustu öld að þróa kenningar um að olía yrði til í iðrum jarðar. Rök þeirra voru meðal annars þau að sumar olíulindir væru svo stórar og lægju svo grunnt að útilokað væri að skýra tilurð þeirra með viðteknu líkönunum, þá hefði ekki tekist að endurskapa á tilraunastofum aðstæður sem breyttu jurtaleifum í olíu þrátt fyrir miklar tilraunir. Sovétmennirnir settu þess í stað fram hugmynd um að geysilegt magn kolefnis væri að finna inni í jörðinni, sem stigi jafnt og þétt upp til yfirborðsins. Þegar það kæmist í snertingu við jarðlög tiltölulega ofarlega í jarðskorpunni yrði á því breyting og útkoman væri jarðolía. Kenningar þessar vöktu nokkra athygli í heimalandi vísindamannanna, en birtust einungis á rússnesku og í vísindaritum sem vöktu litla athygli á Vesturlöndum. Bresk-austurríski vísindamaðurinn Thomas Gold hafði í það minnsta aldrei heyrt um pælingar hinna sovésku starfsbræðra sinna þegar hann fór á sjötta áratugnum að velta fyrir sér uppruna jarðolíu. Niðurstöður hans voru í grunninn þær sömu: að djúpt í jörðu væri ógrynni kolefnis sem hefði í milljarða ára reynt að leita út. Stundum, til að mynda vegna jarðskjálfta, opnuðust glufur fyrir efnið sem streymdi þá uppávið uns það væri fangað í hellum eða sprungum langt fyrir neðan yfirborðið. Þar yrði efnið fæða fyrir örverur sem lifðu djúpt ofan í jörðinni. Þetta skýrði þau lífrænu efnasambönd sem finnast í jarðolíu. Olía væri því ekki í grunninn lífrænt efni sem jarðfræðilegir ferlar breyttu í eldsneyti, heldur jarðefni sem yrði að eldsneyti fyrir tilstilli lífrænna ferla. Blendnar viðtökur Gold taldi að kenning sín gæti falið í sér svarið við ýmsum ráðgátum vísindanna, þar á meðal spurningunni um uppruna lífs á jörðinni. Þannig mætti finna kolefnasambönd á yfirborði annarra pláneta og tungla í sólkerfinu. Hvað væri því til fyrirstöðu að sömu örveruferlar væru að verki þar líka? Sérstaða okkar reikistjörnu væri þá aðeins fólgin í því að lífið hefði leitað upp á yfirborðið og þróast áfram þar. Uppgötvanir á áttunda og níunda áratugnum, þar sem vísindamenn rákust á líf við sífellt ólíklegri aðstæður, í dýpstu hafdjúpum eða hitakærar örverur sem nærðust á efnum sem eru öðru lífi baneitruð, urðu aðeins til að styrkja Gold í sannfæringu sinni. Kenningin um neðanjarðaruppsprettur olíunnar sneri öllum viðteknum jarðfræðihugmyndum á haus og undir eðlilegum kringumstæðum hefði Thomas Gold verið sleginn út af borðinu eins og hver annar vitleysingur. En vandinn er að Thomas Gold var ekki hver annar vitleysingur. Hann var þvert á móti einn snjallasti og áhrifamesti vísindamaður sinnar tíðar. Gold flúði ungur maður vestur um haf með fjölskyldu sinni undan uppgangi nasista í Evrópu. Í hinu nýja heimalandi kom hann að fjölda merkilegra rannsókna, svo sem á ratsjártækninni. Síðar setti hann upp stærstu og öflugustu útvarpssjónauka sem smíðaðir höfðu verið til stjörnufræðirannsókna. Við þá vinnu réð hann sér ungan aðstoðarmann, Carl Sagan, sem síðar varð frægasti stjörnufræðingur í heimi. Bandaríska geimferðastofnunin NASA hafði Gold sér til ráðgjafar í tengslum við tungllendinguna, en honum var meðal annars falið að svara þeirri spurning hvort yfirborð tunglsins væri þétt í sér eða hvort geimfararnir myndu sökkva í botnlaust kviksyndi. Frægastur er hann þó fyrir þátt sinn í að skýra tilvist tifstjarna, sem uppgötvuðust seint á sjöunda áratugnum. Stjörnufræðiafrek og talsverður sannfæringarkraftur Thomasar Gold gerðu það að verkum að erfitt var að hunsa jarðfræðikenningar hans, þótt óneitanlega lægju þær talsvert utan hans sérsviðs. Viðbrögð olíujarðfræðinganna urðu hins vegar heiftúðleg. Ritstjórar bóka sem voguðu sér að birta greinar um efnið fengu yfir sig holskeflu kvartana og jafnvel hótana. Dæmi var um að slík rit væru innkölluð og upplaginu fargað. Vísindasagnfræðingarnir Harry Collins og Trevor Pinch, sem rannsökuðu deilurnar, benda á að harkan komi ekki á óvart. Vísindin vilji draga upp þá mynd af sér að þau snúist um tæra þekkingarleit þar sem byltingarkenndum tilgátum sé tekið vel og þær ýmist sannreyndar eða afsannaðar með tilraunum. Veruleikinn sé flóknari og þar blandist inn í hagsmunir og átök um fjármagn. Ef Gold hefði á réttu að standa væri unnt að finna olíu nánast hvar sem væri. Gríðarleg fjárfesting olíufyrirtækja væri þar með farin í súginn og vísindamenn ættu fyrir höndum erfitt samtal við vinnuveitendur sína þess efnis að starf þeirra síðustu áratugina hefði allt byggst á misskilningi. Engin undirgrein vísindanna kærir sig um að láta sópa undan sér fótunum í einu vetfangi. Á níunda áratugnum fékk Gold færi á að láta á kenningu sína reyna, þegar fjárfestar féllust á að fjármagna boranir á Siljan-svæðinu í Svíþjóð, í stærsta loftsteinsgíg Evrópu. Öllum að óvörum tókst bormönnum að dæla upp nokkru magni af olíu. Gold taldi sig hafa sannað mál sitt, en fljótlega tókst gagnrýnendum hans að finna aðrar mögulegar skýringar á olíufundinum. Áframhaldandi boranir skiluðu heldur ekki afgerandi niðurstöðu og fljótlega misstu fjárfestarnir þolinmæðina. Markmið þeirra var að finna auðvinnanlega olíu en ekki að eyða stórfé í að skera úr um vísindaleg deilumál. Thomas Gold lést árið 2004, sannfærður um að kenning sín um uppruna olíu væri rétt. Saga hans er kunnuglegt stef í vísindasögunni. Endalok vísindakenninga eru sjaldnast þau að vera afsannaðar í tilraunum sem allir deiluaðilar samþykkja, heldur lognast þær út af þegar vísindasamfélagið nennir ekki lengur að taka þær alvarlega og höfundar þeirra deyja. Menning Saga til næsta bæjar Olíuleit á Drekasvæði Bensín og olía Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Einn frægasti krókódíll í heimi allur Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Fleiri fréttir Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Sjá meira
Reglulega berast fregnir af olíuleit á Drekasvæðinu langt norðaustur af Íslandi og láta sumir sig dreyma um svimandi olíugróða innan fáeinna ára eða áratuga. Ekki er langt síðan hugmyndin um olíuvinnslu í miðju Norður-Íshafinu hefði þótt fráleit, ekki endilega út af umhverfissjónarmiðum heldur fremur vegna kostnaðar og tæknilegra örðugleika. Olíufélög hafa varið óhemjumiklu fé í rannsóknir og tækniþróun með það að markmiði að finna og nýta jarðolíu á sífellt afskekktari svæðum og við erfiðari aðstæður. Kveikjan að því eru spádómar um að vinnanlegar olíulindir verði senn á þrotum. Spádómar af þessu tagi eru raunar ekki nýir af nálinni. Þegar árið 1919 spáði yfirmaður bandarísku jarðfræðistofnunarinnar að olíuframleiðsla í landinu myndi ná hámarki innan þriggja ára, en eftir það færi að ganga hratt á forðann. Eftir 1950 fóru vísindamenn með kerfisbundnum hætti að reyna að reikna út olíubirgðir heimsins og áætla út frá því hvenær toppnum í olíuvinnslu yrði náð og hvenær olían yrði uppurin. Margoft hefur orðið að endurskoða spádóma þessa þar sem þeir hafa ekki gengið eftir. Skýringin er tvíþætt. Nýjar olíulindir hafa fundist í sífellu og betri tækni hefur gert það að verkum að unnt er að vinna olíu víðar, bora dýpra eða nýta betur einstakar olíulindir. Þá verður að hafa í huga að áætlanir um olíuforðann hafa ætíð miðast við þá olíu sem hagkvæmt sé að vinna, en skilgreiningar á því hvað teljist hagkvæmt hljóta alltaf að fylgja verði og eftirspurn. Spádómar um olíuþurrð innan fárra áratuga voru lengi vel taldir boða ótíðindi fyrir mannkyn. Þau sjónarmið hafa þó nokkuð breyst í seinni tíð vegna hættunnar af loftslagsbreytingum vegna bruna á jarðefnaeldsneyti. Því eru ýmsir sem telja það ágætar fréttir ef olían klárast undir fótum okkar. Hvað sem þeim vangaveltum líður er ljóst að við getum ekki dælt upp olíu út í það óendanlega. Eyðist það sem af er tekið – eða hvað? Reyndar eru til kenningar sem ganga í aðra átt. Samkvæmt þeim eru olíubirgðir heimsins nánast ótæmandi og þær má finna miklu víðar en nokkurn óraði fyrir. Kenningar þessar eru jaðarhugmyndir í vísindasamfélaginu og njóta varla stuðnings nokkurra viðurkenndra vísindamanna á sviði olíurannsókna. En þrátt fyrir það – og jafnvel einmitt þess vegna – getur verið áhugavert að skoða þær með gleraugum vísindasagnfræðinnar. Að ofan eða neðan? Allir skólakrakkar læra hina viðteknu kenningu um hvernig jarðolía verður til. Í nokkuð einfölduðu máli gengur hún út á að rotnaðar lífveruleifar, einkum plöntur og sjávarþörungar, grafist undir jarðlögum. Þar verða þær fyrir áhrifum hita og þrýstings í milljónir ára og breytast þannig í kröftugt eldsneyti. Þetta ferli getur ekki átt sér stað hvar sem er, heldur einungis við sérstakar jarðfræðilegar aðstæður sem gera það að verkum að hinar lífrænu leifar ná að grafast djúpt í jörðu. Jarðvísindamenn sem sérhæfa sig í olíuleit þurfa því að gera sér í hugarlund margra milljóna ára þróunarferla í náttúrunni til að reikna út líklegar olíulindir. Þeir útreikningar byggja oft á takmörkuðum vísbendingum. Á meðan við getum notað kröftuga sjónauka til að rannsaka stjörnur í órafjarlægð eigum við bágt með að kanna hvað gerist ofan í jörðinni, þar sem við rétt náum að kroppa í ysta hluta jarðskorpunnar. Þessi kenning er sannfærandi og leysti af hólmi eldri hugmyndir sem gerðu ráð fyrir að olía yrði til neðanjarðar úr kolefnissamböndum sem þar væri að finna. Meðal þeirra sem settu fram slíkar skýringar var rússneski efnafræðingurinn Mendeljéff á seinni hluta nítjándu aldar, en hann er kunnastur í dag sem faðir lotukerfis efnafræðinnar yfir frumefnin. Mendeljéff var einn af risum rússneskra raunvísinda og mögulega höfðu kenningar hans sitt að segja um að nokkrir sovéskir jarðvísindamenn hófu um miðja síðustu öld að þróa kenningar um að olía yrði til í iðrum jarðar. Rök þeirra voru meðal annars þau að sumar olíulindir væru svo stórar og lægju svo grunnt að útilokað væri að skýra tilurð þeirra með viðteknu líkönunum, þá hefði ekki tekist að endurskapa á tilraunastofum aðstæður sem breyttu jurtaleifum í olíu þrátt fyrir miklar tilraunir. Sovétmennirnir settu þess í stað fram hugmynd um að geysilegt magn kolefnis væri að finna inni í jörðinni, sem stigi jafnt og þétt upp til yfirborðsins. Þegar það kæmist í snertingu við jarðlög tiltölulega ofarlega í jarðskorpunni yrði á því breyting og útkoman væri jarðolía. Kenningar þessar vöktu nokkra athygli í heimalandi vísindamannanna, en birtust einungis á rússnesku og í vísindaritum sem vöktu litla athygli á Vesturlöndum. Bresk-austurríski vísindamaðurinn Thomas Gold hafði í það minnsta aldrei heyrt um pælingar hinna sovésku starfsbræðra sinna þegar hann fór á sjötta áratugnum að velta fyrir sér uppruna jarðolíu. Niðurstöður hans voru í grunninn þær sömu: að djúpt í jörðu væri ógrynni kolefnis sem hefði í milljarða ára reynt að leita út. Stundum, til að mynda vegna jarðskjálfta, opnuðust glufur fyrir efnið sem streymdi þá uppávið uns það væri fangað í hellum eða sprungum langt fyrir neðan yfirborðið. Þar yrði efnið fæða fyrir örverur sem lifðu djúpt ofan í jörðinni. Þetta skýrði þau lífrænu efnasambönd sem finnast í jarðolíu. Olía væri því ekki í grunninn lífrænt efni sem jarðfræðilegir ferlar breyttu í eldsneyti, heldur jarðefni sem yrði að eldsneyti fyrir tilstilli lífrænna ferla. Blendnar viðtökur Gold taldi að kenning sín gæti falið í sér svarið við ýmsum ráðgátum vísindanna, þar á meðal spurningunni um uppruna lífs á jörðinni. Þannig mætti finna kolefnasambönd á yfirborði annarra pláneta og tungla í sólkerfinu. Hvað væri því til fyrirstöðu að sömu örveruferlar væru að verki þar líka? Sérstaða okkar reikistjörnu væri þá aðeins fólgin í því að lífið hefði leitað upp á yfirborðið og þróast áfram þar. Uppgötvanir á áttunda og níunda áratugnum, þar sem vísindamenn rákust á líf við sífellt ólíklegri aðstæður, í dýpstu hafdjúpum eða hitakærar örverur sem nærðust á efnum sem eru öðru lífi baneitruð, urðu aðeins til að styrkja Gold í sannfæringu sinni. Kenningin um neðanjarðaruppsprettur olíunnar sneri öllum viðteknum jarðfræðihugmyndum á haus og undir eðlilegum kringumstæðum hefði Thomas Gold verið sleginn út af borðinu eins og hver annar vitleysingur. En vandinn er að Thomas Gold var ekki hver annar vitleysingur. Hann var þvert á móti einn snjallasti og áhrifamesti vísindamaður sinnar tíðar. Gold flúði ungur maður vestur um haf með fjölskyldu sinni undan uppgangi nasista í Evrópu. Í hinu nýja heimalandi kom hann að fjölda merkilegra rannsókna, svo sem á ratsjártækninni. Síðar setti hann upp stærstu og öflugustu útvarpssjónauka sem smíðaðir höfðu verið til stjörnufræðirannsókna. Við þá vinnu réð hann sér ungan aðstoðarmann, Carl Sagan, sem síðar varð frægasti stjörnufræðingur í heimi. Bandaríska geimferðastofnunin NASA hafði Gold sér til ráðgjafar í tengslum við tungllendinguna, en honum var meðal annars falið að svara þeirri spurning hvort yfirborð tunglsins væri þétt í sér eða hvort geimfararnir myndu sökkva í botnlaust kviksyndi. Frægastur er hann þó fyrir þátt sinn í að skýra tilvist tifstjarna, sem uppgötvuðust seint á sjöunda áratugnum. Stjörnufræðiafrek og talsverður sannfæringarkraftur Thomasar Gold gerðu það að verkum að erfitt var að hunsa jarðfræðikenningar hans, þótt óneitanlega lægju þær talsvert utan hans sérsviðs. Viðbrögð olíujarðfræðinganna urðu hins vegar heiftúðleg. Ritstjórar bóka sem voguðu sér að birta greinar um efnið fengu yfir sig holskeflu kvartana og jafnvel hótana. Dæmi var um að slík rit væru innkölluð og upplaginu fargað. Vísindasagnfræðingarnir Harry Collins og Trevor Pinch, sem rannsökuðu deilurnar, benda á að harkan komi ekki á óvart. Vísindin vilji draga upp þá mynd af sér að þau snúist um tæra þekkingarleit þar sem byltingarkenndum tilgátum sé tekið vel og þær ýmist sannreyndar eða afsannaðar með tilraunum. Veruleikinn sé flóknari og þar blandist inn í hagsmunir og átök um fjármagn. Ef Gold hefði á réttu að standa væri unnt að finna olíu nánast hvar sem væri. Gríðarleg fjárfesting olíufyrirtækja væri þar með farin í súginn og vísindamenn ættu fyrir höndum erfitt samtal við vinnuveitendur sína þess efnis að starf þeirra síðustu áratugina hefði allt byggst á misskilningi. Engin undirgrein vísindanna kærir sig um að láta sópa undan sér fótunum í einu vetfangi. Á níunda áratugnum fékk Gold færi á að láta á kenningu sína reyna, þegar fjárfestar féllust á að fjármagna boranir á Siljan-svæðinu í Svíþjóð, í stærsta loftsteinsgíg Evrópu. Öllum að óvörum tókst bormönnum að dæla upp nokkru magni af olíu. Gold taldi sig hafa sannað mál sitt, en fljótlega tókst gagnrýnendum hans að finna aðrar mögulegar skýringar á olíufundinum. Áframhaldandi boranir skiluðu heldur ekki afgerandi niðurstöðu og fljótlega misstu fjárfestarnir þolinmæðina. Markmið þeirra var að finna auðvinnanlega olíu en ekki að eyða stórfé í að skera úr um vísindaleg deilumál. Thomas Gold lést árið 2004, sannfærður um að kenning sín um uppruna olíu væri rétt. Saga hans er kunnuglegt stef í vísindasögunni. Endalok vísindakenninga eru sjaldnast þau að vera afsannaðar í tilraunum sem allir deiluaðilar samþykkja, heldur lognast þær út af þegar vísindasamfélagið nennir ekki lengur að taka þær alvarlega og höfundar þeirra deyja.
Menning Saga til næsta bæjar Olíuleit á Drekasvæði Bensín og olía Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Einn frægasti krókódíll í heimi allur Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Fleiri fréttir Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Sjá meira