Íslenski boltinn

Rúnar Páll: FH er með þetta í hendi sér

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rúnar Páll þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll þjálfari Stjörnunnar. Vísir/Ernir
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar var vonsvikinn í leikslok eftir 3-2 tap gegn FH í kvöld. FH kom sér í afar þægilega stöðu þegar aðeins sex leikir eru eftir en sjö stigum munar nú á FH og næstu liðum.

„Þetta er mjög erfitt og FH-ingar eru nú með þetta í hendi sér. Við erum búnir að missa FH ansi langt framúr okkur og nú þurfum við að stóla á aðra en okkar sjálfa. Það er aldrei gott,“ sagði Rúnar Páll í leikslok.

FH-ingar komust yfir í tvígang en Stjörnumenn klóruðu í bakkann allt þar til að Kassim Doumbia skoraði sigurmark leiksins. Rúnar var sáttur við karakterinn í Stjörnuliðinu.

„Þeir voru betri í fyrri hálfleik en við komum mjög sterkir inn í seinni hálfleik og náum að jafna sem erm jög sterkt. Við erum með yfirhöndina þegar þeir skora sigurmarkið en það telur ekki mikið,“ segir Rúnar sem var ekki sáttur við mörkin sem Stjarnan fékk á sig í kvöld, þar af tvö úr föstum leikatriðum.

„Þetta eru eins mörk, við náum ekki að hreinsa boltinn lekur í markið. Þetta eru óþarfa mörk sem við fáum á okkur. Við erum búnir að fara mjög vel í gegnum þetta á æfingasvæðinu og það er ekki gott að fá á sig svona mörk.“

FH-ingar eru líkt og áður sagði komnir með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar og segir að Rúnar Páll að sitt lið muni halda áfram að berjast um titilinn allt til loka þrátt fyrir forskot FH-inga.

„Við þurfum að halda áfram núna og tökum bara einn leik í einu. Það er Breiðablik næst og hörð samkeppni í kringum okkur og þennan þétta pakka við topp deildarinnar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×