Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - Þróttur 1-1 | Svekkelsi fyrir bæði lið

Guðmundur Tómas Sigfússon skrifar
ÍBV og Þróttur skiptu með sér stigunum í miklum fallslag í Vestmannaeyjum. Eyjamenn voru með öll völd á vellinum fyrstu 45 mínúturnar en í seinni hálfleik voru Þróttararnir miklu sprækari.

ÍBV er nú með 18 stig í 10. sæti deildarinnar og eru einungis fimm stigum frá Fylki sem eru þó að spila við Fjölni í þessum töluðu orðum.

ÍBV gjörsamlega yfirspilaði Þróttara í fyrri hálfleik þar sem færin voru nánast óteljandi. Elvar Ingi Vignisson skoraði eftir flotta sókn snemma í leiknum þegar Simon Smidt fann hann einan fyrir framan mark Þróttara.

Margir héldu að þarna myndu Eyjamenn ganga frá gestunum en Arnar Darri Pétursson hélt sínum mönnum gjörsamlega inni í leiknum restina af fyrri hálfleiknum.

Í seinni hálfleik voru Þróttarar miklu sterkari, það var eins og þetta væri ekki sama liðið. Sama má segja um Eyjamenn sem fóru í það að reyna að halda eins marks forskoti í staðinn fyrir að setja annað markið, sem er oft hættulegt.

Andri Ólafsson fór útaf hjá Eyjamönnum eftir 69 mínútna leik og þá kom mjög slæmur kafli hjá ÍBV. Þróttarar fundu þau svæði sem þeir vildu og uppskáru mark sem var í raun bara hlægilegt. Boltinn fór beint á Derby sem missti hann yfir línuna og svo rúllaði boltinn löturhægt í markið.

ÍBV hefur núna unnið einn af síðustu tíu leikjum og mun góð byrjun þeirra líklega halda þeim uppi á endanum.

Af hverju fór jafntefli?

Það er oft talað um að fótbolti sé leikur tveggja hálfleika, sem er í raun augljóst. Liðin áttu þó sitt hvorn hálfleikinn í dag. ÍBV gjörsamlega yfirspilaði Þróttara í fyrri hálfleik og hefðu getað verið tveimur eða þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik ef ekki hefði verið fyrir Arnar Darra í markinu.

Í hálfleik virðist eitthvað skrýtið hafa gerst þar sem Þróttarar virkuðu eins og topplið gegn fallbaráttuliði ÍBV. Það var í raun ljóst að Þróttarar ætluðu að selja sig dýrt og gerðu það svo sannarlega.

Gregg Ryder var duglegur að hvetja sína menn áfram alveg fram að markinu en hann hefur greinilega forðað sínum mönnum frá því að hengja haus. Markið var þó í ódýrari kantinum og í raun algjör gjöf frá Derby Carillo, mæli með að fólk kíki á Pepsi-mörkin í kvöld.

Þessir stóðu upp úr

Arnar Darri Pétursson átti stóran þátt í því að Þróttur væri í raun inni í leiknum eftir fyrstu 45 mínúturnar. Hann varði virkilega vel úr færum Eyjamanna og greip vel inní þegar á það reyndi. Hann gat ekkert gert í marki ÍBV þar sem Elvar gat ekki annað en skorað.

Andri Ólafsson átti alveg frábæran leik, eins og hann á oft þegar hann spilar. Andri misst mikið úr af síðustu árum út af meiðslum sem virðast taka sig upp í hverjum einasta leik. Hann fór af velli rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok og stuttu seinna gerði Þróttur jöfnunarmarkið.

Tonny Mawejje var að spila á móti sínum gömlu félögum í ÍBV og átti alveg ömurlegan fyrri hálfleik. Hann var líklega manna sprækastur í seinni hálfleik og fann sig virkilega vel þegar hann var færður aftar á völlinn í þessa svokölluðu sexu.

Hvað gekk vel?

Í raun allt sem ÍBV reyndi í fyrri hálfeik gekk vel, það var mjög líklega vegna þess að Þróttarar sýndu engan vilja í upphafi. ÍBV skapaði ótrúlegt magn af færum og það mjög góðum færum sem liðið hefur ekki gert í undanförum leikjum. Boltinn gekk vel á milli vængja og framherjarnir Elvar og Gunnar Heiðar voru að ná vel saman.

Eyjamenn virkuðu líka óeigingjarnir fyrir framan markið og leituðu oft af samherja í staðinn fyrir að taka skotið.

Í hálfleiknum virtust Þróttarar hafa áttað sig á því hversu heppnir þeir væru að vera einungis 1-0 undir. Þeir ákváðu því að kýla á þetta í seinni hálfleik og komu í raun að Eyjamönnum í bólinu. Þróttarar fengu þá mikinn tíma á boltann og nýttu sér þá Dion Acoff, Christian Sorensen og Thiago Borges mjög vel.

Gestirnir fundu þá svæðin sem Eyjamenn voru að finna í fyrri hálfleiknum og snerist leikurinn í raun við í hálfleiknum.

Hvað gekk illa?

Eyjamönnum gekk illa að halda boltanum og fengu ekki mikinn tíma á boltann í seinni hálfleiknum. Þá gekk þeim illa að koma boltanum framhjá Arnari Darra sem átti stórleik.

Þrótturum gekk illa með að ráða við allt sem Eyjamenn reyndu í fyrri hálfleiknum. Það var í raun grátlegt að horfa á Þróttaraliðið í upphafi leiks, þeir virkuðu eins og smástrákar við hliðina á ÍBV-liðinu.

Derby Carillo gekk þá illa í boxinu að halda þeim boltum sem á hann komu. Hann missti nokkrum sinnum boltann frá sér þegar langir háir boltar komu inn á teiginn og svo missti hann skot Arons Þórðar Albertssonar í markið mjög seint í leiknum.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn halda áfram í sinni fallbaráttu þar sem þeir hafa verið fastagestir undanfarin ár. Þeir eru nú einungis tveimur stigum frá Fylki, takist þeim að halda út gegn Fjölni.

Þróttarar þurfa að byggja á þessu stigi og skiptir næsti leikur hjá þeim ótrúlega miklu máli þar sem þeir fá Skagamenn í heimsókn. Ef Þróttur spilar eins og þeir gerðu í fyrri hálfleiknum þá skíttapa þeir. Ef þeir sýna þessa baráttu eins og í síðari hálfleik þá gætu þeir strítt Skagamönnum mikið í sinni baráttu um Evrópudeildarsæti.

Gregg Ryder: Ekki tölfræðilega of seint fyrir okkur

„Þetta var það sem þeir meina með leikur tveggja hálfleikja. Það var alvöru baráttuandi í liðinu í þessum seinni hálfleik. Við kýldum á það og var ég stoltur af þessum seinni hálfleik,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari Þróttara, eftir jafntefli á sínum gamla heimavelli í Eyjum.

„Ef við hefðum átt þessa frammistöðu í fyrri hálfleiknum líka, þá hefðum við unnið þennan leik. Þetta er pirrandi en það eina sem aðdáendurnir vilja eftir að hafa komið alla þessa leið er að sjá ellefu leikmenn gefa gjörsamlega allt sem þeir eiga. Þeir gerðu það í seinni hálfleik, þá getum við farið, þakkað áhorfendunum fyrir og verið stoltir af sjálfum okkur,“ sagði Gregg en hann var virkilega ástríðufullur í þessu viðtali.

„Hvar hefur þetta verið í allt sumar? Við höfum átt góða frammistöðu í sumar en þetta var í fyrsta skiptið í langan tíma þar sem ég sé ástríðu leikmanna. Alvöru vilja og áræðni. Þetta er ekki tölfræðilega of seint fyrir okkur.“

„Þetta er ekki of seint. Ef við getum komið með þessa frammistöðu í 90 mínútur, það sem eftir er af tímabilinu, þá er enn möguleiki fyrir okkur.“

Þróttur er í mjög erfiðri stöðu þar sem þeir eru á botni deildarinnar með einungis 9 stig eftir 17 leiki. Í leiknum sást þó að leikmönnum er ekki sama eins og hefur verið haldið fram í síðustu umferðum.

„Nákvæmlega, við erum í erfiðri stöðu. Þetta verður virkilega erfitt en það er ekki ómögulegt að halda sér uppi. Þegar það eru ennþá stig í boði og við getum átt frammistöðu eins og þessa í 90 mínútur í síðustu leikjunum, þá er alltaf von.“

Þarf Gregg kraftaverk til að halda liðinu uppi?

„Ég myndi ekki segja kraftaverk af því að það eina sem við þurfum að gera er að vinna alla leikina okkar. Það þarf ekki kraftaverk, þetta er fótbolti.“

ÍBV er að leita sér að þjálfara eftir brotthvarf Bjarna Jóhannssonar frá félaginu, er það eitthvað sem Gregg hefði áhuga á?

„Nei, Þróttur er minn klúbbur, ég elska stuðningsmennina og er ekki búinn að ljúka mínu starfi hér. Ég held áfram hér,“ sagði Gregg að lokum en það sást á honum í viðtalinu að hann meinti hvert einasta orð sem kom út úr honum.

Ian Jeffs: Áttum að sjá um leikina gegn Víkingi og Þrótti

„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og hefðum átt að klára leikinn. Við áttum að vera búnir að klára leikinn eftir 20 mínútur, þá átti að vera tvö eða þrjú núll og leikurinn búinn,“ sagði svekktur Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, í viðtali eftir jafntefli við Þrótt á heimavelli.

„Það er oft þannig að ef þú skorar ekki annað markið, þá kemur alltaf að því að hinir fá færi og þeir nýttu sín færi. Þeir voru líklegri í seinni hálfleik fannst mér, spiluðu betur en við. Þetta var eins og það kæmi smá hræðsla í seinni hálfleik.“

„Við vorum að reyna að hanga á þessu eina marki í staðinn fyrir að gera það sem við vorum að gera vel í fyrri hálfleik. Þegar við vorum að sækja og reyna að ná öðru markinu.“

„Þegar lið er í botnbaráttu þá er oft þannig að það vantar sjálfstraust í menn. Ég held að við höfum aldrei búið til svona mörg færi í einum leik í allt sumar, en við verðum að klára þau. Það er ekki nóg að búa til færin, við verðum að klára þau líka,“ sagði Ian en hann virðist hafa verið ánægður með spilamennsku síns liðs á stórum köflum.

Nú eru Ian Jeffs og Alfreð Elías Jóhannsson með liðið, hvernig verður framhaldið hjá þeim?

„Við vitum það ekki. Við sjáum til og það kemur betur í ljós á morgun,“ sagði Ian Jeffs um það hvort að þeir myndu stýra liðinu út tímabilið.

Er þetta ekki erfið staða til að vera í fyrir leikmenn og þjálfara, þessi óvissa sem er í gangi?

„Okkur var sagt að við myndum sjá um leikinn við Víking og Þrótt í dag. Svo myndum við tala saman og finna út hvernig við ætlum að leysa þetta út tímabilið. Það sást ekki á mönnum í dag að það væri eitthvað óöryggi í hópnum. Við spiluðum mjög vel í dag og áttum að vera löngu búnir að klára leikinn fyrir hálfleik.“

ÍBV hefur ekki náð að fjarlægjast þessa fallbaráttu eins og vonast var eftir, hvernig sér Ian framhaldið?

„Við erum í fallbaráttu, í 10. sæti og verðum að ná í stig og halda okkur uppi. Svona er þetta bara.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×