Íslenski boltinn

Heimir: Höldum áfram meðan önnur lið eiga möguleika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir og félagar eru í afar góðri stöðu á toppi Pepsi-deildarinnar.
Heimir og félagar eru í afar góðri stöðu á toppi Pepsi-deildarinnar. vísir/anton
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var sáttur með sigurinn sem hans menn sóttu til Ólafsvíkur í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur og mér fannst Víkingar öflugir. Við lentum á köflum í vandræðum með [Hrvoje] Tokic og Þorstein Má [Ragnarsson] og þeir sköpuðu okkur vandræði,“ sagði Heimir eftir leik.

„En á endanum leystum við það og mér fannst við á köflum spila fínan fótbolta. Það er frábært að koma hérna. Gríðarlega flott umgjörð og völlurinn góður.“

Bæði mörk FH-inga komu eftir hornspyrnur Jonathans Hendrickx. Athygli vakti að Hafnfirðingar fjölmenntu inn í markteiginn sem gerði Cristian Martínez Liberato, markverði Víkings, erfitt fyrir.

„Við vildum þrýsta þessu inn á markið eftir að hafa skoðað hvernig þeir dekka í hornspyrnum. Þetta gekk fínt,“ sagði Heimir sem er að vonum sáttur með framlag Hendrickx en hornspyrnur hans hafa skilað fimm mörkum í síðustu þremur leikjum FH.

„Hann hefur tekið flottar hornspyrnur upp á síðkastið og menn hafa ráðist vel á þessa bolta.“

FH-ingar eru í kjörstöðu til að vinna áttunda Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins, með sjö stiga forskot þegar fimm umferðir eru eftir.

„Fyrir mér er þetta þannig að á meðan önnur lið eiga möguleika verðum við að halda áfram. Nú kemur tveggja vikna landsleikjahlé og næst er erfiður leikur gegn Breiðabliki,“ sagði Heimir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×