Íslenski boltinn

Bjarni: Bara einn sigurvegari í úrslitaleik

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
Bjarni stjórnaði ÍBV í þriðja sinn í bikarúrslitum í dag.
Bjarni stjórnaði ÍBV í þriðja sinn í bikarúrslitum í dag. vísir/ernir
Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, sagði að bikarúrslitaleikurinn gegn Val hafi tapast í fyrri hálfleik.

Valsmenn byrjuðu leikinn af fítonskrafti, voru komnir í 2-0 eftir 20 mínútur og eftir það var róðurinn þungur fyrir Eyjamenn.

„Fyrri hálfleikurinn var slæmur, sérstaklega byrjunin á leiknum. Það vantaði alla baráttu og kraft í okkur og þennan anda sem hefur verið í bikarnum,“ sagði Bjarni í samtali við Tómas Þór Þórðarson eftir leik.

„Ég get ekki gefið neina skýringu á því. Seinni hálfleikurinn var ágætur af okkar hálfu en við fórum alltof seint í gang. Heilt yfir voru Valsarnir betri en það var alveg óþarfi að gefa þeim þetta í byrjun.“

Leikur Eyjamanna skánaði í seinni hálfleik en það þurfti miklu meira til að ógna forystu Valsmanna.

„Við náðum ekki að finna glufu á þeim fyrr en aðeins í lokin. Við börðumst þó allavega fyrir þessu í seinni hálfleik en það dugði ekki til,“ sagði Bjarni.

Hann vonast til að þessi árangur, að komast í bikarúrslit, sé byrjunin á einhverju meira hjá ÍBV.

„Vonandi gerist það. Auðvitað vorum við ánægðir að komast í úrslitin en þú veist að það er bara einn sigurvegari í úrslitaleik,“ sagði Bjarni að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×