Íslenski boltinn

Snerting að hætti Dimitars Berbatov

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Egill nýbúinn að leika á Derby Carillo og býr sig undir að renna boltanum í autt markið.
Sigurður Egill nýbúinn að leika á Derby Carillo og býr sig undir að renna boltanum í autt markið. mynd/hafliði breiðfjörð
Sigurður Egill Lárusson gleymir bikarúrslitaleiknum 2016 eflaust ekki í bráð en hann skoraði bæði mörk Vals í öruggum 2-0 sigri.

Valsmenn, sem áttu titil að verja, mættu Eyjamönnum í úrslitaleiknum á laugardaginn og kláruðu leikinn á fyrstu 20 mínútunum.

Eyjamenn réðu ekkert við vel útfærða pressu Valsmanna og vörn ÍBV átti í stökustu vandræðum með hreyfanlega sóknarmenn Vals.

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og það var gott að fá markið svona snemma. Það minnkaði skrekkinn í liðinu og svo höfðum við kannski reynsluna fram yfir ÍBV,“ sagði Sigurður í samtali við Fréttablaðið í gær.

Hann kom Val yfir strax á 8. mínútu þegar hann tók boltann skemmtilega með sér fram hjá Jonathan Barden, hægri bakverði ÍBV, lék á markvörðinn Derby Carillo og renndi svo boltanum í autt markið.

„Þetta var svolítið skemmtileg snerting,“ sagði Sigurður sem hefur verið duglegur að æfa hreyfingar sem þessar.

„Við förum alltaf fyrir æfingar og sendum langar sendingar og æfum svona „Berbatov touch“, að drepa boltann. Það er greinilega að skila sér,“ sagði Sigurður og bætti því við að hann væri nú sennilega aðeins sneggri en Búlgarinn eitursvali.

Sigurður Egill kyssir bikarinn.mynd/hafliði breiðfjörð
Seinna mark Sigurðar kom eftir 20 mínútna leik og var sömuleiðis í laglegri kantinum. Sigurður rak þá smiðshöggið á góða sókn Valsmanna sem voru miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.

„Þetta var ótrúlega flott sókn og það eru fá lið sem eiga möguleika gegn okkur þegar við eigum góðan dag,“ sagði Sigurður. Hann kvaðst ánægður með að Valsmönnum hefði tekist að klára leikinn, nokkuð sem hefur stundum vantað í sumar.

„Við höfum nokkrum sinnum verið 2-1 yfir í sumar en fengið á okkur jöfnunarmark, þannig að við ætluðum bara að vera þéttir til baka. Þetta var kannski ekki skemmtilegasti seinni hálfleikurinn en við vorum agaðir og ætluðum að halda þetta út,“ sagði Sigurður.

Valur varð sem áður sagði bikarmeistari í fyrra eftir 2-0 sigur á KR í úrslitaleik. Þá gáfu Valsmenn hins vegar hressilega eftir og náðu aðeins í níu stig í síðustu sjö leikjum sínum í Pepsi-deildinni. Sigurður segir að Valsmenn ætli ekki að láta það koma fyrir aftur.

„Það er alveg klárt. Við ætlum klárlega að gera betur og enda eins ofarlega og hægt er,“ sagði Sigurður en Valur situr í 6. sæti Pepsi-deildarinnar. Næsti leikur Valsmanna er gegn Víkingi R., uppeldisfélagi Sigurðar.

Sigurður verður samningslaus eftir tímabilið og það er því óhætt að segja að hann hafi styrkt samningsstöðu sína með mörkunum tveimur í bikarúrslitaleiknum. Hann ætlar að halda öllum möguleikum opnum og segir að draumurinn sé að komast í atvinnumennsku.

„Ég skoða bara allt eftir tímabilið og hvað er í boði,“ sagði Sigurður. „Mig langar og ég hef metnað til að komast út. Ég vinn að því og hef lagt aukalega á mig, sérstaklega síðustu tvö ár, og mér finnst það vera að skila sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×