Sport

Horfði á sigur Liverpool áður en hann setti heimsmetið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayde van Niekerk.
Wayde van Niekerk. Vísir/Getty
Suður-Afríkumaðurinn Wayde van Niekerk sló í gær eitt af þessum langlífu heimsmetum frjálsra íþrótta þegar hann tryggði sér Ólympíugull í 400 metra hlaupi karla.

Wayde van Niekerk hljóp á 43,03 sekúndum og sló heimsmet Michael Johnson sem var sett á síðustu öld, nánar tilgetið á HM í Sevilla árið 1999.

Þetta er eitt af metunum sem margir töldu að myndi jafnvel aldrei vera bætt og það er óhætt að segja að frábært hlaup Suður-Afríkumannsins hafi komið á óvart.

Það vakti ennfremur athygli að Ólympíumeistarinn blandaði leik Liverpool og Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar inn í viðtalið við sig eftir hlaupið.

„Ég horfði á Liverpool-leikinn áður en ég fór út á völl. Ég var alveg að missa mig af því að þetta var svo spennandi leikur. Við náðum samt að vinna," sagði Wayde van Niekerk en hann er mikill stuðningsmaður Liverpool.

Liverpool lenti 1-0 undir í leiknum, komst síðan í 4-1 en rétt slapp á endanum með 4-3 sigur á æsispennandi lokamínútum.

„Bróðir minn er stuðningsmaður Arsenal. Þetta getur því ekki verið betri dagur, ég er kominn með heimsmetið og Ólympíugull og Liverpool vann Arsenal," sagði Wayde van Niekerk.

Wayde van Niekerk fékk líka hvatningu frá Usain Bolt fyrir hlaupið. „Bolt sagði við mig á Jamaíka að ég myndi bæta heimsmetið. Í kvöld sagði hann síðan við mig: Ég sagði þér að þú gætir þetta," sagði Wayde van Niekerk.

Usain Bolt fylgdi í kjölfarið á Wayde van Niekerk og tryggði sér líka Ólympíugull. Bolt vann þá 100 metra hlaup karla á þriðju Ólympíuleikunum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×