Íslenski boltinn

Félögin fá 453 milljónir frá KSÍ vegna EM

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. vísir/stefán
KSÍ tilkynnti í dag að búið væri að úthluta 453 milljónum króna til aðildarfélaga KSÍ en þetta er hluti af peningunum sem KSÍ fékk út af frábærum árangri karlalandsliðsins á EM.

Þessum fjármunum skal eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna.

Á ársþingi KSÍ sem fram fór 13. febrúar síðastliðinn var tilkynnt að 300 milljónum króna yrði úthlutað á árinu til aðildarfélaga KSÍ sem sérstakt EM framlag eða um 25% af greiðslunni frá UEFA.

Í samræmi við auknar greiðslur UEFA til KSÍ vegna EM hefur stjórn KSÍ ákveðið að hækka framlagið til aðildarfélaga sambandsins í 453 m. kr. sem er um 25% af heildargreiðslu UEFA. Stjórn KSÍ hefur einnig ákveðið hvernig greiðslurnar skiptast á milli aðildarfélaga.

Framlag til aðildarfélaga byggist fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum sl. 3 ár, 2014, 2015 og 2016 eða yfir það tímabil sem Evrópumótið í knattspyrnu náði yfir.

Félögum er síðan skipt upp í þrjá flokka. Í fyrsta flokki eru 17 félög sem bestum árangri hafa náð í deildarkeppninni, í öðrum flokki 30 félögum sem þar koma á eftir og síðan er þriðji flokkurinn félög sem ekki standa fyrir barna- og unglingastarfi.

Félögin í fyrsta flokki fá 181 m. kr. til skipta, félögin í öðrum flokki 140 m. kr. og félögin í þriðja flokki 2,8 m. kr. Félögin í fyrsta og öðrum flokki fá einnig 1 m. kr. skilyrt framlag vegna þátttöku í sérstöku unglingaþjálfaranámskeiði KSÍ (UEFA elite youth).

Að lokum er úthlutað 82 m. kr. til félaga í efstu tveimur deildum karla 2016 og efstu deild kvenna 2016 vegna markaðsáhrifa Evrópumótsins. Félög í Pepsi-deild karla fá 4 m. kr., félög í Inkasso-deild karla 2 m. kr. og félög í Pepsi-deild kvenna 1 m. kr. Fjármunum sem nú er veitt til aðildarfélaga skal eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna.  Framlagið verður greitt til aðildarfélaga í tvennu lagi.

Sjá má skiptingu fjármunana hér á vef KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×