Sport

Héldust í hendur og sökuð um athyglissýki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér koma systurnar í mark.
Hér koma systurnar í mark. Vísir/Getty
Þýsku hlaupararnir Anna og Lisa Hahner, sem eru tvíburar, héldust í hendur þegar þær komu í mark í maraþonhlaupi kvenna á Ólympíuleikunum á sunnudag.

Atvikið hefur vakið athygli víða. Mörgum þótti Ólympíuandinn vera í fyrirrúmi en forráðamenn þýska frjálsíþróttasambandsins voru ekki hrifnir.

Sjálfar sögðu systurnar að þetta hefði ekki verið undirbúið. Þær höfðu ekki hlaupið hlið við hlið allt hlaupið en 300 metrum áður en kom að marklínunni sá Anna að hún var komin upp að hlið systur sinnar.

„Þetta var yndisleg stund og töfrum líkast að við gætum klárað maraþonið saman. Við vorum ekki að pæla í hvað við vorum að gera,“ sagði Anna.

„Við höfum æft saman fyrir þetta hlaup í fjögur ár. Við vorum ekki ánægðar með tímann eða í hvaða sæti við lentum en við vorum ánægðir með að hafa lagt okkur allar fram,“ sagði hún enn fremur en systurnar lentu í 81. og 82. sæti í hlaupinu.

„Sigrar og verðlaunapeningar eiga ekki að vera einu markmið íþróttamanna á Ólympíuleikum,“ sagði Thomas Kurschilgen, íþróttastjóri þýska frjálsíþróttasambandsins, í tölvupósti sem hann sendi vegna málsins.

„Hver einasti keppandi á að gera sitt allra besta og stefna að bestu mögulegu niðurstöðunni,“ sagði hann enn fremur og sakaði tvíburana um að fara með maraþonkeppni á Ólympíuleikum eins og skemmtiskokk.

„Markmið þeirra var að ná sér í athygli fjölmiðla. Það er það sem við gagnrýnum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×