Menning

Spuninn er eins og hver önnur íþrótt

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Dóra Jóhannsdóttir leikkona hefur í nægu að snúast þessa dagana.
Dóra Jóhannsdóttir leikkona hefur í nægu að snúast þessa dagana. Vísir/GVA
Ég mun leikstýra minni fyrstu sýningu í Borgarleikhúsinu í vetur, verkið heitir Ræman og fjallar um starfsmenn í bíói, það má segja að leikritið sé frekar lágstemmt, einlægt, fallegt og fyndið. Þetta er mjög spennandi, ég er með frábæra leikara sem ég er virkilega spennt að vinna með,“ segir Dóra Jóhannsdóttir leikkona spurð út í frumraun sína sem leikstjóri í Borgarleikhúsinu.

Æfingar hefjast í haust en meðal leikara í sýningunni eru þau Kristín Þóra Haraldsdóttir, Hjörtur Jóhann Jónsson og Davíð Þór Katrínarson.

„Þetta er frábær hópur, Kristín Þóra og Hjörtur unnu bæði Grímuna í fyrra og Davíð Þór er virkilega spennandi ungur leikari sem útskrifaðist úr leiklistarskóla í Los Angeles. Þetta er hans fyrsta verkefni í Borgarleikhúsinu,“ segir Dóra og bætir við að hún hlakki mikið til að vinna með þeim.

Nóg er á döfinni hjá Dóru en ásamt leikstjóraverkefninu stofnaði Dóra spunahópinn Improv Ísland fyrir nokkrum árum en hópurinn mun koma fram í Tjarnarbíói í dag sem hluti af dagskrá Gay Pride.

„Við erum alltaf með opnar æfingar og námskeið fyrir alla, en þeir sem hafa æft lengst eru í sýningarhóp sem kemur fram við ýmis tækifæri. Það þarf mikla tækni til að vera í góðu spunaformi svo við höfum verið að æfa stíft. Fólk er að æfa einu sinni til fjórum sinnum í viku, því betra formi sem þú ert í, því fyndnari og skemmtilegri ertu á sviðinu,“ segir hún.





Spunahópurinn Improv Ísland kemur fram í Tjarnarbíói í dag. Mynd/Móa Gustum
„Það tekur langan tíma að ná öryggi í spunanum, þetta er eins og hver önnur íþrótt, þú þarft að raða inn klukkutímum af æfingum og í samræmi við það verður þú betri,“ segir hún.

Dóra lærði spunatækni í New York í nokkur ár en frá því hún stofnaði Improv Ísland er óhætt að segja að áhugi fyrir spuna á Íslandi hafi aukist töluvert.

„Ég lærði spuna í Upright Citizens Brigade í New York, leikkonan Amy Poehler stofnaði skólann fyrir um tuttugu árum síðan,“ segir Dóra og bætir við að eftir því sem þau verði færari og fleiri sæki námskeiðin þeirra aukist áhuginn hér heima, sem sé frábært.

„Það eru mikil fræði og pælingar á bak við spunann og hægt er að nýta sér spunatæknina á alls konar starfsvettvöngum og í ýmsum samskiptum,“ segir Dóra. Sýningarhópur Improv Ísland verður einnig með spunamaraþon í Þjóðleikhúskjallaranum á Menningarnótt þar sem hópurinn mun sýna í tíu klukkutíma.

Framundan er nóg um að vera hjá Dóru, en ásamt því að leikstýra sinni fyrstu sýningu í Borgarleikhúsinu í vetur, mun hún leika í bíómynd og halda áfram að þjálfa upprennandi spunaleikara.

„Þetta verður skemmtilegur vetur. Ég mun taka þátt í spennandi verkefni sem heitir Fórn, ásamt Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannssyni og fleirum. Svo er ég að leika lítið hlutverk í kvikmyndinni Undir trénu eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson,“ segir Dóra að lokum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.