Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur Ó. - ÍBV 0-1 | Fjórða tap Víkings í röð | Sjáðu markið

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Ólafsvíkurvelli skrifar
ÍBV lagði Víking Ólafsvík 1-0 í fjórtándu umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu.

Markið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Gunnar Heiðar var í byrjunarliði ÍBV í fyrsta sinn á leiktíðinni og ekki tók það hann langan tíma að skora sitt fyrsta mark á leiktíðinni.

Þrátt fyrir mikla yfirburði og fjölmörg færi náði ÍBV ekki að bæta við marki fyrir hálfleik en Víkingur ógnaði marki gestanna lítið sem ekkert fyrstu 45 mínútur leiksins.

Meira jafnvægi var í seinni hálfleik en ekkert mark skorað. ÍBV er nú með 17 stig, stigi á eftir Víkingi.



Af hverju vann ÍBV?

ÍBV byrjaði leikinn frábærlega. Liðið komst fljótt yfir og hafði mikla yfirburði á vellinum í kjölfarið og í raun allan fyrri hálfleikinn.

Illa hefur gengið hjá báðum liðum en markið sem ÍBV skoraði gaf liðinu mikið sjálfstraust og tók að sama skapi alla trú úr leik Víkings. ÍBV hefði í raun átt að gera út um leikinn í fyrri hálfleik því liðið fékk fjölmörg góð færi til að skora.

Meira jafnvægi var í leiknum í seinni hálfleik en ÍBV fékk engu að síður besta færið í hálfleiknum. Víkingur lék betur eftir að Þorsteinn Már Ragnarsson og Martin Svensson komu inn á en náði ekki að spaka sér nógu teljandi færi til að skora.



Þessir stóðu upp úr

Framlína ÍBV lék frábærlega í fyrri hálfleik en samt voru það miðjumennirnir Pablo Punyed og Mikkel Maigaard sem stóðu upp úr. Þeir gátu nánast gert það sem þeir vildu á miðjunni enda fengu þeir mikið pláss gegn andlausum Ólsurum.

Þegar Víkingur sótti í seinni hálfleik strönduðu flestar sóknartilraunir þeirra á Hafsteini Briem í vörn ÍBV.

Víkingar geta þakkað markverði sínum Cristian  Martinez að hafa ekki tapað leiknum stærra en hann varði nokkrum sinnum vel í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hann gat þó ekkert gert við frábærri afgreiðslu Gunnars Heiðars í markinu.



Hvað gekk illa?

Víkingur kom vægast sagt andlaus inn í leikinn að því er virtist. Enga baráttu var að sjá hjá leikmönnum liðsins fyrr en Ejub Purisevic þjálfari liðsins gerði breytingar snemma í seinni hálfleik.

Þrátt fyrir frábært mark og mikla yfirburði gekk ÍBV illa að nýta færin og hefði liðið átt að gera út um leikinn á fyrstu 45 mínútunum. Gunnar Heiðar hefði getað skorað þrennu í leiknum en honum til varnar er hann búinn að vera meiddur frá því í janúar.



Hvað gerist næst?

Nú getur ÍBV byrjað að hugsa um bikarúrslitin. Liðið mætir Val í úrslitaleiknum 13. ágúst og getur liðið farið nokkuð afslappað inn í þann leik eftir þennan mikilvæga sigur. Liðið hafði þokast óþæglilega nálægt fallsvæðinu en er nú komið með andrými.

Víkingur sækir ÍA heim tveimur dögum eftir bikarúrslitin en Víkingur þarf sárlega á stigunum að halda þar. Liðið hefur nú tapað fjórum leikjum í röð og mun enda í fallbaráttu fari liðið ekki að sækja stig.

Bjarni: Flott fyrir komandi viku„Það var frábært spil hjá okkur í fyrri hálfleik. Við náðum að láta boltann rúlla og vorum með ákveðnir aftur fyrir línuna hjá þeim og áttum að klára leikinn í fyrri hálfleik,“ sagði Bjarni Jóhannsson þjálfari ÍBV.

„Við sigldum þessu heim í endann og það var enginn afgangur af því. Þeir pressuðu okkur með háum boltum í seinni hálfleik og sköpuðu sér ekkert rosalegt færi en við fengum álitleg færi úr hraðaupphlaupum.“

ÍBV hafði ekki unnið í sex leikjum fyrir leikinn í dag en það var ekki að sjá á leik liðsins. Liðið skapaði sér fjölda færa og hefðu gestirnir geta átt náuðugan seinni hálfleik hefðu þeir nýtt færin.

„Ef þau detta inn í næstu leikjum verð ég alsæll með það. Eitt mark dugði í dag til að ná í þrjú stig sem er flott fyrir komandi viku,“ sagði Bjarni.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson byrjaði sinn fyrsta leik í sumar og var Bjarni alsæll að fá framherjann inn.

„Það er mjög mikilvægt. Það er maður sem er búinn að vera lengi í atvinnumennsku og kann leikinn mjög vel. Hann gerir menn betri í krinum sig líka. Það var gott að fá hann inn og hann entist lengur en ég þorði að vona.

„Þetta er búið að vera magurt í undanförnum leikjum og að koma hingað í Ólafsvík og vinna er frábært.

Gunnar Heiðar: Hefði þurft viku í viðbót til að skora þrennu„Mér líður svakalega vel. Þrjú stig á Ólafsvík er geggjað,“ sagði glaðbeittur Gunnar Heiðar Þorvaldsson eftir að hafa byrjað sinn fyrsta leik á leiktíðinni fyrir ÍBV.

„Líkaminn er fínn. Lungun eru fín en hásinin og þar sem var skorið upp er svolítið lúið núna. En það er frábært að vera kominn aftur.“

ÍBV mætir Val í úrslitum Borgunarbikarsins á laugardaginn og verður ákveðin prófraun á Gunnar Heiðar, hvort hann nær þeim leik.

„Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir því. Að koma með sigur í farteskinu úr þesum leik er frábært. Við sýndum í fyrri hálfleik að við getum leikið okkur að hvaða liði sem er.

„Ég hefði þurft eina viku í viðbót. Þá hefði ég skorað þrennu á korteri,“ sagði Gunnar Heiðar og hló. „Nei ég fann mig mjög vel. Það er frábært að vera kominn aftur. Ég hafði ekki spilað síðan í janúar. Geggjað að vera kominn og hjálpa peyjunum. Það er búið að vera erfitt að vera fyrir utan og horfa á þetta.

Ejub: Verður erfiðara og erfiðara„Við fengum mark á okkur snemma og eftir það var þetta ansi erfitt,“ sagði Ejub Purisevic eftir tap Ólsara í dag.

„Það er fáránlegt að gefa svona mark, beint úr útsparki frá markmanni. Það er fáránlega staðsetning og lestur á leiknum. Það er svo einfalt. Við vorum of ragir til að koma inn í leikinn eftir þetta.

„Við vorum að flýta okkur of mikið. ÍBV var með marga menn fyrir aftan boltann og það var erfitt að brjóta niður.

„Þeir voru mjög ákveðnir og það var erfitt við að eiga. Við fengum margar skyndisóknir í andlitið,“ sagði Ejub.

Víkingur Ólafsvík lék betur í seinni hálfleik og hefðu í raun bæði lið getað skorað í honum. Leikurinn var því opinn þrátt fyrir mikla yfirburði ÍBV í fyrri hálfleik.

„Við komum vel til baka í seinni hálfleik og áttum að skora. Það var margt á móti okkur í dag,“ sagði Ejub sem var ekki ánægður með enskan dómara leiksins David Howard Martin.

„Ég vil ekki segja neitt um það en mér finnst þetta hálfpartinn grín og allt skipulag í kringum þetta.“

Þetta var fjórða tap Víkings í röð og ljóst að gengi liðsins er farið að hafa mikil áhrif á leikmenn liðsins.

„Þetta er mjög erfitt og rosaleg brekka. Við þurfum að ná að stoppa þessa blæðingu og ná í stig. Það er rosalega erfitt og þetta verður erfiðara og erfiðara með hverjum leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×