Íslenski boltinn

Hvað gera lærisveinar Willums í Kaplakrika?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Willum Þór og lærisveinar hans fara í Krikann og mæta Íslandsmeisturunum.
Willum Þór og lærisveinar hans fara í Krikann og mæta Íslandsmeisturunum. vísir/hanna
Fjórtándu umferð Pepsi-deildar karla lýkur í kvöld með þremur leikjum, en stærsti leikur kvöldsins verður í Kaplakrika þar sem risarnir FH og KR mætast.

FH er á toppi deildarinnar með 28 stig, tveimur meira en Stjarnan. KR hefur hins vegar ekki gengið vel á tímabilinu, en þeir eru í tíunda sætinu með 16 stig og þurfa nauðsynlega á stigunum að halda.

KR vann fyrri leik liðanna með einu marki gegn engu, en markið skoraði Pálmi Rafn Pálmason á KR-vellinum í maí. FH-ingar blása til mikillar veislu fyrir leikinn, en nánar má lesa um upphitun FH-inga hér.

Þróttur, sem er í afar erfiðri stöðu á botni deildarinnar með sjö stig, fá sjóðheita Stjörnumenn í heimsókn. Stjarnan er í öðru sætinu með 26 stig og getur með hagstæðum úrslitum komist á toppinn í kvöld.

Þriðji og síðasti leikur kvöldsins verður á Víkingsvelli þar sem Breiðablik er í heimsókn. Blikarnir gerðu jafntefli við Fylki 1-1 í síðasta leik og voru það mikil vonbrigði að þeirra mati, en þeir eru í fjórða sætinu með 23 stig. Víkingur tapaði fyrir Stjörnunni í síðasta leik og er í sjöund sæti með 18 stig.

Öllum leikjunum verður að sjálfsögðu lýst á Boltavaktinni og einnig verður leikur FH og KR sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 18.45.

Pepsi-mörkin verða svo á sínum stað í kvöld þar sem umferðin verður krufin til mergjar, en þau hefjast á slaginu 22.00.

Leikir dagsins:

19.15 FH - KR

19.15 Þróttur R. - Stjarnan

19.15 Vikingur R. - Breiðablik




Fleiri fréttir

Sjá meira


×