Íslenski boltinn

Óttar Magnús um dvölina hjá Ajax: Einveran var erfið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingurinn Óttar Magnús Karlsson hefur komið eins og stormsveipur inn í Pepsi-deild karla í sumar.

Óttar, sem er 19 ára gamall, hefur skorað fjögur mörk í deildinni auk tveggja marka í Borgunarbikarnum og reynst Víkingum gríðarlega mikilvægur.

Óttar sneri heim í vor eftir þrjú ár hjá hollenska stórliðinu Ajax og hann er ánægður að vera kominn aftur í Víkingsbúninginn.

„Þetta var gríðarlega lærdómsríkt en þetta er harður heimur þarna úti,“ sagði Óttar í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2. En var þetta erfitt hjá Ajax?

„Að vissu leyti. Einveran og að vera frá vinum og fjölskyldu var erfitt og tók svolítið á,“ sagði Óttar sem segist þó hafa bætt sig mikið úti í Hollandi.

Óttar segir að það hafi ekki verið erfið ákvörðun að koma aftur heim.

„Það er miklu þægilegra að hafa fjölskyldu og vini nálægt sér og geta leitað til þeirra ef eitthvað er að. Innst inni vissi ég að mig langaði að koma heim,“ sagði Óttar sem segir það ekki hafa komið til greina að vera áfram úti í Hollandi.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×