Innlent

Lilja býður sig ekki fram til formanns Framsóknarflokksins

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gerir ráð fyrir því að boðað verði til miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins í ágúst.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gerir ráð fyrir því að boðað verði til miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins í ágúst. vísir/stefán
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra gerir ráð fyrir því að boðað verði til miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins í ágúst. Hún segir ekki koma til greina að bjóða sig fram í formann flokksins gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Lilja kom nokkuð óvænt inn í íslensk stjórnmál þegar hún tók sæti í ríkisstjórn sem utanríkisráðherra 7. apríl síðastlinn.

Lilja var gestur Páls Magnússonar Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar var hún m.a. spurð hvort boðað yrði til miðstjórnarfundar í Framsóknarflokknum fyrir kosningar í haust og um stöðu Sigmundar Davíðs sem formann flokksins.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef það væri miðstjórnarfundur nú í ágúst eða svo. Það sem er að gerast núna er að Sigmundur er að tala við flokksmenn um land allt. Ég held að þau samtöl gangi bara vel fyrir sig,“ sagði Lilja.

Þú reiknar með að þessi flokksþingi verði flýtt?

„Ég á frekar von á því, já,“ sagði Lilja.

Lilja sagði það þó ekki koma til greina að bjóða sig fram sem formann gegn Sigmundi Davíð. Hún sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hún myndi gefa kost á sér í alþingiskosningunum í haust. Það væri þó spennandi möguleiki.

„Ég get sagt það að ég hef haft mjög gaman af þessu á síðustu mánuðum. Ég hef líka verið mjög ánægð á þeim vettvangi sem ég hef verið í Seðlabankanum og störfum mínum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,“ sagði Lilja.

Hvort eru meiri líkur eða minni á því að þú farir í þingframboð í haust?

„Ég hef lofað fjölskyldu minni að við munum frekar fyrst ákveða þetta í sameiningu áður en ég fer að tjá mig um það opinberlega um þetta,“ sagði Lilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×