Menning

Pólitíkus í farsa á stóra sviðinu

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Ilmur mun fara rétt með að vera í leikhúsinu ásamt því að vera formaðurVelferðarráðs.
Ilmur mun fara rétt með að vera í leikhúsinu ásamt því að vera formaðurVelferðarráðs.
Ilmur Kristjánsdóttir hefur lengi vel verið þekktust fyrir störf sín sem leikkona en hún hefur seinustu tvö ár sinnt starfi varaborgarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg. Hún var kjörin formaður velferðarráðs fyrir einu ári en nú hefur hún tekið að sér hlutverk í sýningu hjá Borgarleikhúsinu samhliða borgarstjórnarstörfunum.

Eftir áramót mun hún leika í gamanleik hjá leikhúsinu en mikil leynd hvílir yfir verkinu og leikstjóra þess.

„Ég er ekki í fullu starfi svo að þegar mér var boðið þetta hlutverk ákvað ég að taka því eftir samræðu við samstarfsfólk mitt. Ég verð að sinna formannsstarfinu samhliða æfingaferlinu svo að það verður mikið að gera þessa tvo mánuði.“

Ilmur virtist ekki stressuð yfir auknu vinnuálagi sem mun fylgja því að starfa bæði í pólitík og leikhúsi. „Æfingarnar hefjast í lok janúar á næsta ári og munu standa yfir í tvo mánuði. Svo verða sýningarnar auðvitað bara á kvöldin í kjölfarið svo að mesta álagið verður yfir æfingatímann og ég er með gott stuðningsnet á bak við mig svo þetta ætti ekki að verða neitt stórmál.“

Leiklistin og varaborgarfulltrúarstarfið eru tvö mjög ólík hlutverk en Ilmur er viss um að þau eigi vel saman. „Ég tek starfi mínu sem formaður velferðarráðs mjög alvarlega og ég hef alltaf sinnt því hundrað prósent. Það er í raun draumastaða að geta unnið við þetta í bland við leiklistina. Ég bæti á sköpunarkrafts­tankinn sem ég nýti mér í velferðarráðsstarfið. Svo verður þetta líka skemmtileg tilbreyting þar sem ég hef alltaf verið í þyngri hlutverkum í leikhúsi svo ég er mjög spennt fyrir þessu.“

Ilmur hefur verið starfandi sem varaborgarfulltrúi í tvö ár en inn á milli hefur hún verið í barneignarleyfi ásamt því að leika í Ófærð. Seinasta sumar var hún kjörin formaður velferðarráðs og því er um tvö mjög ólík störf að ræða sem hún kemur til með að sinna á næsta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.