Skoðun

Tekjur af ferðamönnum

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Ferðaþjónustan er á skömmum tíma orðin stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Því fylgja góðar gjaldeyristekjur og atvinnutækifæri en einnig það að fleiri nýta sér þjónustu sem greidd er úr ríkissjóði. Ríkisstjórnin hefur ekki brugðist við auknum kostnaði og er bæði stefnu- og ráðalaus sem bitnar á þjónustu við ferðamenn og íbúa landsins.

Ef ekki verður gripið um stjórnartaumana er líklegast að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist og að fjárfestingar sem ráðist hefur verið í beri sig ekki, með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.

Við í Samfylkingunni krefjumst aðgerða strax og viljum að:

Heilbrigðisþjónusta og sjúkraflutningar verði styrktir um allt land.

Lögreglu verði gert kleift að sinna íbúum jafnt sem ferðamönnum.

Viðhald vega verði aukið umtalsvert.

Öryggi ferðamanna verði bætt og uppbygging ferðamannastaða efld.

Íbúðum verði fjölgað verulega, svo ásókn ferðaþjónustunnar spenni ekki upp húsnæðisverð og framboð verði nægilegt fyrir fjölskyldur sem þurfa þak yfir höfuðið.

Tekjur af ferðamönnum renni líka til sveitarfélaga.

Ferðamenn greiða lágan virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu. Með hækkun virðisaukaskatts í almennt þrep með hæfilegum aðlögunartíma fengjust um tíu milljarðar króna árlega í ríkissjóð til að mæta auknum útgjöldum. Ég tel það einföldustu og bestu leiðina til að bregðast við vandanum. Og í virðisaukaskattskerfinu er allt klappað og klárt.

Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur leitt til þess að almenningur ber nú kostnaðinn en ferðamennirnir fá afslátt. Það gengur ekki lengur. Við verðum að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem gefa tekjur til viðhalds vega, í heilbrigðisþjónustu, verndun náttúru og löggæslu. Þannig greiða ferðamennirnir fyrir uppbyggingu sem nýtist bæði greininni og íbúum um allt land.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×