Sport

Mikið stuð þegar Brasilíumenn hlaupa um með Ólympíueldinn | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólympíueldurinn á leið um Brasilíu.
Ólympíueldurinn á leið um Brasilíu. Vísir/Getty
Brasilíumenn hlaupa þessa dagana með Ólympíueldinn út um allt landið sitt en aðeins 59 dagar eru þangað til að 31. Ólympíuleikarnir verða settir í Ríó.

Ólympíueldurinn var kveiktur við hátíðlega athöfn í Ólympíu í Grikklandi 21. apríl síðastliðinn og kom til Brasilíu 3. maí eftir smá viðkomu í Sviss og langa flugferð frá Genf.

Hann hóf strax ferðalag sitt um alla Brasilíu og tólf þúsund kyndilberar munu hlaupa með hann í gegnum 329 borgir og bæi í þessu risastóra landi áður en hann kemur til Ríó 5. ágúst næstkomandi.

Alls mun ferðlag Ólympíueldarins taka 106 daga og fara yfir 20 þúsund kílómetra. Það er meira en í London (70 dagar/ 12.800 km) en mun minna en 2008 þegar Kínverjar fóru með hann 137 þúsund kílómetra á 130 dögum.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um fjörið þegar hlaupið er um með Ólympíueldinn í Brasilíu og ef marka má þessa stemmningu verður örugglega mikið dansað og sungið á götum Ríó þessa sextán daga sem  Ólympíuleikarnir fara fram.

Karnival andrúmsloftið og sambasöngvarnar virkja alla með enda sambatakturinn  meira smitandi en flest annað.

Það hefur vissulega gengið á ýmsu í aðdraganda leikanna en Brasilíumenn eru augljóslega staðráðnir í að gera hina bestu kjötkveðjuhátíðarstemningu úr öllu saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×