Sport

Tap gegn Kýpverjum í undankeppni HM/EM smáþjóða

Leikmennn íslenska liðsins þurftu að sætta sig við tap í gær.
Leikmennn íslenska liðsins þurftu að sætta sig við tap í gær. Mynd/bli.is
Íslenska karlalandsliðinu í blaki var skellt niður á jörðina á ný í 1-3 tapi gegn Kýpur í Laugardalshöll í gær en íslenska liðinu tókst ekki að fylgja eftir sigrinum gegn Skotum í gær.

Íslenska liðið kom fullt sjálfstrausts til leiks í gær eftir sigurinn gegn Skotum í oddahrinu 3-2 en Kýpverjar byrjuðu leikinn af krafti.

Náðu þeir forskotinu strax í upphafi og tóku fyrstu hrinuna 25-14 eftir að hafa leitt nánast allan tímann.

Strákarnir mættu mun einbeittari til leiks í annarri hrinu og héldu forskotinu allt til loka. Náðu þeir að jafna í 1-1 með því að taka aðra hrinuna 25-20 og virtist íslensku leikmennirnir ekki ætla að játa sig sigraða á heimavelli.

Kýpverjum tókst hinsvegar að snúa taflinu sér í hag í þriðju lotu og breyttu stöðunni úr 10-10 í 25-16 á stuttum tíma.

Slæmur kafli íslenska liðsins hélt áfram inn í fjórða leikhluta og náðu leikmenn íslenska landsliðsins aldrei að vinna sig aftur inn í lotuna og þurftu þeir því að sætta sig við tap.

Stigahæsti leikmaður íslenska liðsins var Hafsteinn Valdimarsson með 11 stig og hjá Kýpverjum var Vladimir Knezevic með 18 stig.

Ísland mætir Andorra á morgun í lokaleik riðilsins og þarf að sigra leikinn til að eiga von á að komast upp úr riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×