Fótbolti

Hörður Björgvin getur núna farið að einbeita sér að EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu um boltann í leiknum í kvöld.
Hörður Björgvin Magnússon í baráttu um boltann í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Hörður Björgvin Magnússon og félagar hans í Cesena eru úr leik í umspilinu um laust sæti í ítölsku A-deildinni í fótbolta eftir tap á heimavelli sínum í kvöld.

Spezia, sem varð einu sæti neðar í töflunni og á útivelli í kvöld, vann leikinn 2-1. Fyrra mark Spezia var sjálfsmark en það síðara skoraði varamaðurinn Sergio Postigo fimm mínútum fyrir leikslok.

Camillo Ciano skoraði eina mark Cesena í leiknum en það skoraði hann úr vítaspyrnu á 65. mínútu og jafnaði þar með leikinn í 1-1. Liðsfélagi hans og Harðar Björgvins, Francesco Renzetti, hafði skoraði sjálfsmark fimm mínútum fyrir hálfleik og komið Spezia í 1-0.

Spánverjinn Sergio Postigo kom inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum og skoraði sigurmarkið á 85. mínútu.

Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn í liði Cesena. Hann þekkir vel til í herbúðum Spezia því hann var lánaður til liðsins frá Juventus tímabilið 2013-2014 og lék þá 20 leiki með því í b-deildinni.

Cesena-liðið komst þar með ekki í undanúrslitin og eru leikmenn liðsins þar með komnir í sumarfrí. Allir reyndar nema einn því Hörður Björgvin Magnússon var valinn í EM-hóp Íslands og er á leiðinni til Íslands til móts við aðra í íslenska hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×