Fótbolti

Ein kjánalegasta bikarlyfting sögunnar | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sevilla vann í gær Evrópudeildina í fótbolta þriðja árið í röð eftir 3-1 endurkomusigur á Liverpool í úrslitaleik í Basel í Sviss.

Leikmenn Sevilla ættu því að vera orðnir vanir því að taka við bikarnum en það var þó ekki að sjá í klúðurslegri bikarlyftingu leikmanna liðsins á St. Jakob-Park leikvanginum í gærkvöldi.

Eins og venjan er þá fengu allir leikmenn sigurliðsins sinn verðlaunapening áður en bikarinn fór á loft. Það vantaði heldur ekki leikmenn Sevilla sem vildu ná í sín gullverðlaun.

Það var orðið því orðið svolítið þröngt á þingi í heiðursstúkunni á St. Jakob-Park þegar kom að því að lyfta sjálfum UEFA-bikarnum og fyrirliðinn Jose Antonio Reyes sást hvergi.

Jose Antonio Reyes, fyrirliði Sevilla, lyfti samt bikarnum en hann sást þó hvergi því fjölmargir liðsfélagar hans skyggðu á hann.  Ljósmyndararnir hafa örugglega klórað sig í kollinum enda náðu þeir fyrir vikið engum alvöru vinklum.

Bikar sást reyndar koma upp úr miðjum hópnum en hver sem er hefði getað verið að lyfta honum. Þetta var eins kjánalegt og svona bikarlyftingar gerast.

Jose Antonio Reyes komst loksins fram fyrir liðsfélaga sína og gat þá lyft bikarnum eins og hefð er fyrir enda mynd af þessari sögulegu stund út um allt í evrópskum blöðum í morgun.

Sevilla varð nefnilega fyrsta félagið sem nær að vinna UEFA-bikarinn þrjú ár í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×