Skoðun

Stóra spurningin

Árni Páll Árnason skrifar
Í umræðu undanfarinna vikna um skattaskjól höfum við ótal sinnum heyrt þær afsakanir að stofnun aflandsfélags hafi nú enga þýðingu haft, því það hafi aldrei verið notað. Þetta heyrist jafnt frá ráðherrum og forstjórum lífeyrissjóða.

Þessi röksemd kallar á stóra spurningu: Af hverju var þá verið að búa félagið til? Ríkisskattstjóri staðhæfir að tilgangur með eign í skattaskjóli geti bara verið tvenns konar: Að forðast skattlagningu eða fela eignarhald. Þennan skilning hefur yfirskattanefnd staðfest og hann er í samræmi við viðhorf alþjóðastofnana sem best til þekkja.

Ef stjórnmálamenn eða forsvarsmenn lífeyrissjóða almennings stofna félög af þessum toga blasir því við að ásetningur liggi að baki um annað tveggja: Að forðast skattskil eða fela eignarhald fyrir almenningi, fjölmiðlum eða þeim regluvörðum og eftirlitsaðilum sem ætlað er að afstýra innherjaviðskiptum. Við getum ekki búið við slíkt.

Við völd eru hér enn ráðherrar sem átt hafa aflandsfélög og forsvarsmenn stjórnarflokkanna fyrr og nú hafa verið á kafi í viðskiptum í skattaskjólum. Það er ófært. Fordæmi forsvarsmanna lífeyrissjóða sem hafa vikið úr starfi ætti að verða þrásetumönnum stjórnarflokkanna til umhugsunar. Ísland þarf að hrista af sér þennan orðsporshnekki. Hluti af því er að taka þátt í baráttu gegn skattaskjólum og í því skyni taka þátt í alþjóðlegu átaki eins og því sem Sergei Stanishev, formaður PES, flokks evrópskra jafnaðarmanna, kynnti hér á landi um helgina.

Við í Samfylkingunni munum leggja til að Ísland gangist fyrir viðskiptabanni á skattaskjólsríki á alþjóðavettvangi. Við þurfum líka að banna Íslendingum að halda fé í skattaskjólum og slitabú hinna föllnu banka eiga að opna allar upplýsingar um viðskipti þeirra á aflandssvæðum fyrir hrun.

Hugsið ykkur: Allt sem við vitum kemur frá einni lögmannsstofu í Panama. Það eru miklu fleiri lögmannsstofur í Panama og miklu fleiri lönd sem sérhæfa sig í skattaskjólum en Panama. Það þarf allt upp á borðið.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×