Gingatan til Heljar Stefán Pálsson skrifar 10. apríl 2016 10:00 Fáir listamenn hafa haft jafn víðtæk samfélagsleg áhrif með list sinni og enski málarinn William Hogarth. Hogarth, sem stóð á hátindi frægðar sinnar um miðbik átjándu aldar, var jafnvígur á fjölda listgreina. Vinsælastar urðu þó koparristur hans með siðaboðskap, sem sýndu á skoplegan hátt muninn á hlutskipti þeirra sem völdu réttar og rangar brautir í lífinu. Hafa sumir fyrir vikið kallað Hogarth einn af frumkvöðlum myndasögunnar. Á árunum 1732-3 gerði Hogarth átta málverka röð sem hlaut nafnið Rake´s Progress og sýndi æskumanninn Tom Rakewell sem tæmist arfur eftir föður sinn og heldur til Lundúna að lifa í vellystingum. Á fyrstu myndunum leikur allt í lyndi og spjátrungurinn Tom nýtur borgarlífsins umkringdur fölskum vinum. Með tímanum hallar undan fæti: fjárhættuspil, vændiskonur og að lokum peningaleysi fara með unga manninn í hundana og hann endar á geðveikrahæli. Myndaröð þessi er í dag talin meðal öndvegisverka enskrar listasögu og var fljótlega prentuð og komst í almenna dreifingu um allt Bretland. Áhrifamáttur slíkra áróðursmynda var mikill ekki hvað síst í samfélagi þar sem lestrarkunnátta var takmörkuð. Gin eða öl? Nokkrum árum síðar, 1751, sendi listamaðurinn frá sér tvær myndir af svipuðum toga sem áttu ekki síður eftir að hafa mikil áhrif á viðhorf samlanda hans. Þetta voru verkin Bjórstræti og Gintröð (e. Beer Street og Gin Lane). Sú síðarnefnda sýndi götumynd í örvingluðu og úrkynjuðu samfélagi, þar sem fólkið drakk gin af stút og hirti lítt um útlit sitt og umhverfi, þannig kippir dauðadrukkin móðir sér ekki upp við það þótt hún missi barnið sitt yfir handrið og menn og skepnur liggja saman í ræsinu og bítast á um kjötbein, Á Bjórstræti gegndi öðru máli. Þar voru allir feitir og pattaralegir. Viðhaldi húsa var ágætlega sinnt, listmálarar voru að störfum á hverju götuhorni og sýlspikaðir bjórbelgir létu vel að ungum og fögrum stúlkum. Allir á myndinni eru hamingjusamir, nema einn: veðmangarinn – sem fær enga viðskiptavini. Skýrari gátu andstæðurnar vart orðið. Listaverkum þessum var ætlað að styðja við lagafrumvarp sem lá fyrir breska þinginu til að draga úr neyslu og framleiðslu á gini. Varð frumvarpið að lögum þetta sama ár og fól í sér algjöra kúvendingu á stefnu stjórnvalda. Hollenskt gin barst fyrst til Englands á síðasta áratug sautjándu aldar í kjölfar þess að Niðurlendingurinn Vilhjálmur frá Óraníu tók við ensku krúnunni og varð þegar vinsælt. Stjórnvöld í Lundúnum hófu fljótlega að ýta með ráðum og dáð undir eimingu sterkra drykkja. Tilgangurinn var meðal annars sá að draga úr innflutningi á frönskum vínum og koníaki en ekki síður að búa til afurðir sem selja mætti nýlendum í öðrum heimshlutum og bæta þannig vöruskiptajöfnuðinn. Drykkjusvolar Afleiðingarnar urðu sífellt ódýrara gin á heimamarkaði með vaxandi drykkjuskap og félagslegum vandamálum. Hefur verið áætlað að um 1730 hafi hver Lundúnabúi drukkið meira en lítra af gini í viku hverri! Þótt höfuðborgarbúar væru ginnkeyptastir fyrir gini (hnyttni að yfirlögðu ráði) var landsmeðaltalið einnig hátt eða um 10 lítrar á ári. Löggjöfinni frá 1751 var ætlað að snúa við óheillaþróuninni. Ýmsar skorður voru settar við rekstri ginframleiðenda og skattlagning aukin. Fáeinum árum síðar dró verulega úr ginfárinu á Englandi, þótt sagnfræðinga greini á um hvort það hafi verið löggjafanum að þakka eða hvort hækkun á hráefnisverði hafi þar ráðið mestu. Meðal þess sem ensk stjórnvöld gerðu til að vinda ofan af ginþambinu, var að styrkja stöðu samkeppnisdrykkja. Annars vegar með því að greiða fyrir innflutningi á tei en hins vegar að hvetja almenning (einkum karla) til að drekka meiri bjór í staðinn. Þær átakalínur áttu svo eftir að skerpast mjög í næstu stóru bindindisbylgju í Bretlandi. Þótt drykkja á sterku áfengi næði aldrei aftur hæðum fyrri hluta 18. aldar, var ofdrykkja eftir sem áður vandamál. Vitundarvakning varð á þriðja áratug nítjándu aldar, sem átti sér ýmsar rætur. Breska þingið vildi, líkt og áttatíu árum fyrr, bregðast við ofneyslu sterkra drykkja með því að beina almenningi frekar að bjór. Árið 1830 var sett löggjöf um brugghús og knæpur sem átti eftir að standa í meginatriðum óbreytt í meira en eina og hálfa öld. Lögin auðvelduðu til mikilla muna stofnun nýrra brugghúsa og heimiluðu veitingamönnum að opna krár gegn greiðslu hóflegs leyfisgjalds. Niðurstaðan varð sprenging í bjórframleiðslu og bjórdrykkju í Bretlandi, auk þess sem ókjör nýrra veitingahúsa hófu starfsemi. Lögin voru samþykkt í stjórnartíð konungsins Vilhjálms fjórða og er það líklega ástæða þess að enn í dag er hann talinn sá breski þjóðhöfðingi sem flestir pöbbar eru nefndir eftir. Engar undanþágur En ekki voru allir þeirrar skoðunar að það að beina mönnum frá sterkari áfengistegundum yfir í þær veikari væri rétta baráttuaðferðin. Joseph Livesey nefndist maður frá borginni Preston í Lancasterskíri. Hann missti foreldra sína sjö ára gamall og þurfti sjálfur að sjá fjölskyldu sinni farborða frá táningsaldri. Þrátt fyrir að njóta nálega engrar formlegrar skólagöngu kom Livesey ár sinni vel fyrir borð, varð áberandi stjórnmálamaður í heimasveit sinni og afkastamikill útgefandi blaða og bóka. Hann var líka frumkvöðull á sviði bindindismála. „Bjór er líka áfengi“, sagði auglýsingaherferð Umferðarvarnaráðs árið 1989, þegar Íslendingar bjuggu sig undir áfengan bjór. Mörgum þótti slagorðið skringilegt og taka fram hið augljósa. Var það að lokum haft í flimtingum í áramótaskaupinu.En á fyrri hluta nítjándu aldar voru þessi sannindi ekki jafn augljós. Bjór var af þorra almennings talinn eðlisólíkur brenndum drykkjum og áhrifin á neytendur af ólíkum toga. Bjór var talinn mun orku- og næringarríkari en raunin er. Var ekki óalgengt að talað væri um bjór sem máltíð í glasi og tengdu margir örvunina sem fólk upplifði við bjórdrykkju fremur við orkuskotið sem drykkurinn gæfi en vínandann.Joseph Livesey beitti aðferðum efnafræðinnar til að sýna fram á að enginn eðlismunur væri á vínanda í bjór eða gini. Jafnframt lagði hann ríka áherslu á að afsanna kenningar um næringargildi bjórs og sýndi fram á hversu margfalt ódýrara það væri að metta sig með brauði en öli. Með þessa fullvissu að vopni hóf Livesey ásamt fylgismönnum sínum baráttu fyrir algjöru bindindi. Árið 1833 var fyrsta bindindisfélagið á þessum grunni stofnað í Preston og breiddist skjótt út. Uppgangur bindindishreyfingarinnar hélst í hendur við eflingu verkalýðshreyfingarinnar, enda skaðleg áhrif ofneyslu áfengis hvergi augljósari en meðal alþýðufólks. Norræna leiðin Hin rótgróna bjórmenning Breta reyndist ofjarl bindindishreyfingarinnar þar í landi. Kröfur um algjört bann við áfengi náðu aldrei eyrum ráðamanna og nutu takmarkaðs stuðnings. Utan landsteinanna voru undirtektir þó aðrar og meiri. Góðtemplarareglan kom fram í Bandaríkjunum um miðbik aldarinnar og steypti saman bindindishugmyndum úr smiðju Liveseys og skipulagi reglna á borð við Frímúrara. Templarar urðu veigamikið þjóðfélagsafl vestan hafs og styrkur þeirra varð sömuleiðis mikill á Norðurlöndum. Árið 1843 höfðu Fjölnismenn haft forgöngu um stofnun Hófsemdarfélags, sem miðaði að því að draga úr áfengisneyslu Íslendinga (þótt vissulega hafi meðlimir hópsins tekið boðskapinn misalvarlega). Hófsemdarfélagið sem kynnt var í Fjölni var innblásið af boðskapnum frá Bretlandi, en hneigðist þó fremur til mildari línunnar sem heimilaði bjórdrykkju. Mátti raunar færa heilsufarsleg rök fyrir því að drekka frekar bjór en vatnið úr brunnunum í Kaupmannahöfn. Líkt og á svo mörgum öðrum sviðum töluðu Fjölnismenn fyrir daufum eyrum Íslendinga þegar kom að bindindismálum. Góðtemplarareglan barst loks til Íslands frá Noregi um miðjan níunda áratug nítjándu aldar. Hún fór sigurför um landið og varð líklega öflugasta félagshreyfing sem Ísland hefur augum litið. Templararnir veittu enga afslætti af bindindi sínu og allar raddir um að fallast á bjór sem illskárri valkost við brennivín voru kæfðar. Það reyndist afdrifaríkt fyrir þann litla vísi að bjórmenningu sem farinn var að myndast á Íslandi undir lok nítjándu aldar. Eftir nokkrar bjórlausar aldir, hafði bjórinnflutningur til Íslands tekið kipp, einkum eftir 1870. Skiptu þar máli viðskiptatengslin við Danmörku, en dönsku fyrirtækin Carlsberg og Tuborg voru leiðandi á heimsvísu í sölu á flöskubjór landa á milli, en breyttar siðvenjur höfðu ekki síður sitt að segja. Íslenska borgara- og embættismannastéttin var að tileinka sér erlenda siði, þar sem það hætti að teljast félagslega viðurkennt að vera pöddufullur á almannafæri. Fínir menn í Reykjavík fóru því í vaxandi mæli að skipta út brennivínspyttlunni fyrir danskt öl og heitt toddý. Aukin bindindissemi ýtti þannig tímabundið undir neyslu Íslendinga á áfengum bjór, en kippti svo fótunum undan henni fáeinum árum síðar. Aldamótaárið 1900 var framleiðsla sterkari drykkja en 2,25% bönnuð í landinu og þegar almennu áfengisbann var komið á var bjórinn með á bannlista og þar við sat allt til fyrsta mars 1989. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Fáir listamenn hafa haft jafn víðtæk samfélagsleg áhrif með list sinni og enski málarinn William Hogarth. Hogarth, sem stóð á hátindi frægðar sinnar um miðbik átjándu aldar, var jafnvígur á fjölda listgreina. Vinsælastar urðu þó koparristur hans með siðaboðskap, sem sýndu á skoplegan hátt muninn á hlutskipti þeirra sem völdu réttar og rangar brautir í lífinu. Hafa sumir fyrir vikið kallað Hogarth einn af frumkvöðlum myndasögunnar. Á árunum 1732-3 gerði Hogarth átta málverka röð sem hlaut nafnið Rake´s Progress og sýndi æskumanninn Tom Rakewell sem tæmist arfur eftir föður sinn og heldur til Lundúna að lifa í vellystingum. Á fyrstu myndunum leikur allt í lyndi og spjátrungurinn Tom nýtur borgarlífsins umkringdur fölskum vinum. Með tímanum hallar undan fæti: fjárhættuspil, vændiskonur og að lokum peningaleysi fara með unga manninn í hundana og hann endar á geðveikrahæli. Myndaröð þessi er í dag talin meðal öndvegisverka enskrar listasögu og var fljótlega prentuð og komst í almenna dreifingu um allt Bretland. Áhrifamáttur slíkra áróðursmynda var mikill ekki hvað síst í samfélagi þar sem lestrarkunnátta var takmörkuð. Gin eða öl? Nokkrum árum síðar, 1751, sendi listamaðurinn frá sér tvær myndir af svipuðum toga sem áttu ekki síður eftir að hafa mikil áhrif á viðhorf samlanda hans. Þetta voru verkin Bjórstræti og Gintröð (e. Beer Street og Gin Lane). Sú síðarnefnda sýndi götumynd í örvingluðu og úrkynjuðu samfélagi, þar sem fólkið drakk gin af stút og hirti lítt um útlit sitt og umhverfi, þannig kippir dauðadrukkin móðir sér ekki upp við það þótt hún missi barnið sitt yfir handrið og menn og skepnur liggja saman í ræsinu og bítast á um kjötbein, Á Bjórstræti gegndi öðru máli. Þar voru allir feitir og pattaralegir. Viðhaldi húsa var ágætlega sinnt, listmálarar voru að störfum á hverju götuhorni og sýlspikaðir bjórbelgir létu vel að ungum og fögrum stúlkum. Allir á myndinni eru hamingjusamir, nema einn: veðmangarinn – sem fær enga viðskiptavini. Skýrari gátu andstæðurnar vart orðið. Listaverkum þessum var ætlað að styðja við lagafrumvarp sem lá fyrir breska þinginu til að draga úr neyslu og framleiðslu á gini. Varð frumvarpið að lögum þetta sama ár og fól í sér algjöra kúvendingu á stefnu stjórnvalda. Hollenskt gin barst fyrst til Englands á síðasta áratug sautjándu aldar í kjölfar þess að Niðurlendingurinn Vilhjálmur frá Óraníu tók við ensku krúnunni og varð þegar vinsælt. Stjórnvöld í Lundúnum hófu fljótlega að ýta með ráðum og dáð undir eimingu sterkra drykkja. Tilgangurinn var meðal annars sá að draga úr innflutningi á frönskum vínum og koníaki en ekki síður að búa til afurðir sem selja mætti nýlendum í öðrum heimshlutum og bæta þannig vöruskiptajöfnuðinn. Drykkjusvolar Afleiðingarnar urðu sífellt ódýrara gin á heimamarkaði með vaxandi drykkjuskap og félagslegum vandamálum. Hefur verið áætlað að um 1730 hafi hver Lundúnabúi drukkið meira en lítra af gini í viku hverri! Þótt höfuðborgarbúar væru ginnkeyptastir fyrir gini (hnyttni að yfirlögðu ráði) var landsmeðaltalið einnig hátt eða um 10 lítrar á ári. Löggjöfinni frá 1751 var ætlað að snúa við óheillaþróuninni. Ýmsar skorður voru settar við rekstri ginframleiðenda og skattlagning aukin. Fáeinum árum síðar dró verulega úr ginfárinu á Englandi, þótt sagnfræðinga greini á um hvort það hafi verið löggjafanum að þakka eða hvort hækkun á hráefnisverði hafi þar ráðið mestu. Meðal þess sem ensk stjórnvöld gerðu til að vinda ofan af ginþambinu, var að styrkja stöðu samkeppnisdrykkja. Annars vegar með því að greiða fyrir innflutningi á tei en hins vegar að hvetja almenning (einkum karla) til að drekka meiri bjór í staðinn. Þær átakalínur áttu svo eftir að skerpast mjög í næstu stóru bindindisbylgju í Bretlandi. Þótt drykkja á sterku áfengi næði aldrei aftur hæðum fyrri hluta 18. aldar, var ofdrykkja eftir sem áður vandamál. Vitundarvakning varð á þriðja áratug nítjándu aldar, sem átti sér ýmsar rætur. Breska þingið vildi, líkt og áttatíu árum fyrr, bregðast við ofneyslu sterkra drykkja með því að beina almenningi frekar að bjór. Árið 1830 var sett löggjöf um brugghús og knæpur sem átti eftir að standa í meginatriðum óbreytt í meira en eina og hálfa öld. Lögin auðvelduðu til mikilla muna stofnun nýrra brugghúsa og heimiluðu veitingamönnum að opna krár gegn greiðslu hóflegs leyfisgjalds. Niðurstaðan varð sprenging í bjórframleiðslu og bjórdrykkju í Bretlandi, auk þess sem ókjör nýrra veitingahúsa hófu starfsemi. Lögin voru samþykkt í stjórnartíð konungsins Vilhjálms fjórða og er það líklega ástæða þess að enn í dag er hann talinn sá breski þjóðhöfðingi sem flestir pöbbar eru nefndir eftir. Engar undanþágur En ekki voru allir þeirrar skoðunar að það að beina mönnum frá sterkari áfengistegundum yfir í þær veikari væri rétta baráttuaðferðin. Joseph Livesey nefndist maður frá borginni Preston í Lancasterskíri. Hann missti foreldra sína sjö ára gamall og þurfti sjálfur að sjá fjölskyldu sinni farborða frá táningsaldri. Þrátt fyrir að njóta nálega engrar formlegrar skólagöngu kom Livesey ár sinni vel fyrir borð, varð áberandi stjórnmálamaður í heimasveit sinni og afkastamikill útgefandi blaða og bóka. Hann var líka frumkvöðull á sviði bindindismála. „Bjór er líka áfengi“, sagði auglýsingaherferð Umferðarvarnaráðs árið 1989, þegar Íslendingar bjuggu sig undir áfengan bjór. Mörgum þótti slagorðið skringilegt og taka fram hið augljósa. Var það að lokum haft í flimtingum í áramótaskaupinu.En á fyrri hluta nítjándu aldar voru þessi sannindi ekki jafn augljós. Bjór var af þorra almennings talinn eðlisólíkur brenndum drykkjum og áhrifin á neytendur af ólíkum toga. Bjór var talinn mun orku- og næringarríkari en raunin er. Var ekki óalgengt að talað væri um bjór sem máltíð í glasi og tengdu margir örvunina sem fólk upplifði við bjórdrykkju fremur við orkuskotið sem drykkurinn gæfi en vínandann.Joseph Livesey beitti aðferðum efnafræðinnar til að sýna fram á að enginn eðlismunur væri á vínanda í bjór eða gini. Jafnframt lagði hann ríka áherslu á að afsanna kenningar um næringargildi bjórs og sýndi fram á hversu margfalt ódýrara það væri að metta sig með brauði en öli. Með þessa fullvissu að vopni hóf Livesey ásamt fylgismönnum sínum baráttu fyrir algjöru bindindi. Árið 1833 var fyrsta bindindisfélagið á þessum grunni stofnað í Preston og breiddist skjótt út. Uppgangur bindindishreyfingarinnar hélst í hendur við eflingu verkalýðshreyfingarinnar, enda skaðleg áhrif ofneyslu áfengis hvergi augljósari en meðal alþýðufólks. Norræna leiðin Hin rótgróna bjórmenning Breta reyndist ofjarl bindindishreyfingarinnar þar í landi. Kröfur um algjört bann við áfengi náðu aldrei eyrum ráðamanna og nutu takmarkaðs stuðnings. Utan landsteinanna voru undirtektir þó aðrar og meiri. Góðtemplarareglan kom fram í Bandaríkjunum um miðbik aldarinnar og steypti saman bindindishugmyndum úr smiðju Liveseys og skipulagi reglna á borð við Frímúrara. Templarar urðu veigamikið þjóðfélagsafl vestan hafs og styrkur þeirra varð sömuleiðis mikill á Norðurlöndum. Árið 1843 höfðu Fjölnismenn haft forgöngu um stofnun Hófsemdarfélags, sem miðaði að því að draga úr áfengisneyslu Íslendinga (þótt vissulega hafi meðlimir hópsins tekið boðskapinn misalvarlega). Hófsemdarfélagið sem kynnt var í Fjölni var innblásið af boðskapnum frá Bretlandi, en hneigðist þó fremur til mildari línunnar sem heimilaði bjórdrykkju. Mátti raunar færa heilsufarsleg rök fyrir því að drekka frekar bjór en vatnið úr brunnunum í Kaupmannahöfn. Líkt og á svo mörgum öðrum sviðum töluðu Fjölnismenn fyrir daufum eyrum Íslendinga þegar kom að bindindismálum. Góðtemplarareglan barst loks til Íslands frá Noregi um miðjan níunda áratug nítjándu aldar. Hún fór sigurför um landið og varð líklega öflugasta félagshreyfing sem Ísland hefur augum litið. Templararnir veittu enga afslætti af bindindi sínu og allar raddir um að fallast á bjór sem illskárri valkost við brennivín voru kæfðar. Það reyndist afdrifaríkt fyrir þann litla vísi að bjórmenningu sem farinn var að myndast á Íslandi undir lok nítjándu aldar. Eftir nokkrar bjórlausar aldir, hafði bjórinnflutningur til Íslands tekið kipp, einkum eftir 1870. Skiptu þar máli viðskiptatengslin við Danmörku, en dönsku fyrirtækin Carlsberg og Tuborg voru leiðandi á heimsvísu í sölu á flöskubjór landa á milli, en breyttar siðvenjur höfðu ekki síður sitt að segja. Íslenska borgara- og embættismannastéttin var að tileinka sér erlenda siði, þar sem það hætti að teljast félagslega viðurkennt að vera pöddufullur á almannafæri. Fínir menn í Reykjavík fóru því í vaxandi mæli að skipta út brennivínspyttlunni fyrir danskt öl og heitt toddý. Aukin bindindissemi ýtti þannig tímabundið undir neyslu Íslendinga á áfengum bjór, en kippti svo fótunum undan henni fáeinum árum síðar. Aldamótaárið 1900 var framleiðsla sterkari drykkja en 2,25% bönnuð í landinu og þegar almennu áfengisbann var komið á var bjórinn með á bannlista og þar við sat allt til fyrsta mars 1989.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira