Fótbolti

Guardiola: Vörn Benfica ein sú besta í Evrópu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu hefjast í kvöld en þýska stórliðið Bayern München fær þá Benfica frá Portúgal í heimsókn í fyrri viðureign liðanna í fjórðungsúrslitum.

Bayern er talið sigurstranglegri aðilinn en með sigri í rimmunni kemst Bayern áfram í undanúrslitin í fimmta sinn í röð.

Benfica hefur hins vegar aðeins tapað einum leik í öllum keppnum undanfarna fjóra mánuði og unnið sautján af nítján leikjum sínum. Enn fremur hefur Benfica aðeins fengið á sig þrettán mörk í þeim.

„Mér finnst við ekki sigurstranglegri eftir að ég sá Benfica spila,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi sínum. „Mér finnst mikið til leik liðsins koma. Ég tel að við séum ekki sigurstranglegri og það verður erfitt að komast í undanúrslitin.“

„Benfica spilar mjög ákafan varnarleik. Varnarlína liðsins er ein sú besta í Evrópu. Þeir leyfa andstæðingum sínum varla að skapa færi.“

Arjen Robben verður ekki með í leiknum í kvöld vegna meiðsla en þar að auki eru Holger Badstuber og Jerome Boateng frá. Kingsley Coman kemur aftur í lið Bayern eftir að hann var hvíldur um helgina.

Leikurinn hefst klukkan 18.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Þess ber að geta að leikurinn er í ólæstri dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×