Fótbolti

Gary Neville versti þjálfari í sögu Valencia

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Neville átti ekki sjö dagana sæla á Mestalla.
Gary Neville átti ekki sjö dagana sæla á Mestalla. vísir/getty
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, var í gær formlega sagt upp störfum sem þjálfari spænska 1. deildar liðsins Valencia eins og greint var frá.

Vefsíða enska blaðsins Daily Mail heldur því fram í morgun að Neville hafi verið rekinn fyrir landsleikjafríið en Englendingurinn hafi fengið að hafa hljótt um það til að trufla ekki lærisveina sína í enska landsliðinu þar sem hann er aðstoðarmaður Roy Hodgson.

Fjögurra mánaða starfi Neville er allavega lokið á Mestalla-vellinum og kveður hann sem versti þjálfari Valencia frá upphafi ef miðað er við sigurhlutfall í deild.

Neville, sem var orðinn lang vinsælasti og virtasti sparkspekingur Englands áður en hann tók við starfinu, vann aðeins þrjá af 16 leikjum sínum í deildinni, gerði fimm jafntefli og tapaði átta. Hann innbyrti fjórtán stig í heildina og fékk því 0,88 stig í leik.

Pako Ayestaran, sem var aðstoðarþjálfari félagsins frá 2001 til 2004, mun stýra liðinu fram á sumar en hann tekur við Valencia í 14. sæti með 34 stig, sex stigum frá fallsæti.

Gary Neville kom Valencia í undanúrslit spænska Konungsbikarsins þar sem liðið fékk vænan rassskell gegn Barcelona og þá féll liðið úr leik í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×