Fótbolti

Messi á svo mörg met hjá Barca að hann er byrjaður að safna þeim slæmu líka

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Lionel Messi skoraði mark og lagði upp önnur þrjú þegar Barcelona valtaði yfir Getafe, 6-0, á Nývangi í spænsku 1. deildinni í fótbolta um helgina.

Börsungar eru taplausir í síðustu 37 leikjum í öllum keppnum sem er met hjá spænsku liði, en Barcelona stefnir hraðbyri að Spánarmeistaratitlinum. Liðið er með átta stiga forskot þegar níu umferðir eru eftir.

Messi er búinn að skora 22 mörk í deildinni og gefa tíu stoðsendingar. Hann er í heildina búinn að skora 36 mörk í öllum keppnum, en þetta er áttunda árið í röð sem Argentínumaðurinn skorar 30 mörk eða fleiri.

Messi á eins og allir vita endalaust af metum hjá Barcelona. Hann á nánast öll þau góðu þannig nú er hann byrjaður að safna þeim slæmu líka. Argentínski snillingurinn er nefnilega bestur í flestu fyrir utan að taka vítaspyrnur.

Hann brenndi af vítaspyrnu gegn Getafe, en þetta var í tólfta sinn á ferlinum sem hann klúðrar vítaspyrnu í búningi Barcelona. Enginn hefur klúðrað fleiri vítaspyrnum sem leikmaður Barcelona enda fáir tekið jafn margar.

Barcelona setti líka slæmt met saman sem lið. Vítaspyrnan sem Messi klikkaði á um helgina var sú áttunda sem liðið brennir af. Ekkert lið í sögu spænsku 1. deildarinnar hefur klúðrar jafn mörgum vítaspyrnur.


Tengdar fréttir

Barcelona valtaði yfir Getafe

Barcelona niðurlægði Getafe, 6-0, í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en leikurinn fór fram á Nou Camp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×