Skoðun

Samningarnir fara fyrir Alþingi, segir ráðherra

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Í viðtali við Morgunblaðið um búvörusamninga sagði forsætisráðherra á dögunum: „Það er búið að undirrita þessa samninga, og málið er frá.“ Þess vegna er það fagnaðarefni að fjármálaráðherrann sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þann 29. febrúar að samningarnir yrðu lagðir fyrir Alþingi.

Orðrétt voru orð fjármálaráðherrans þessi: „Fyrst varðandi samráð við þingið þá veit þingmaðurinn auðvitað að þessir samningar eru gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis og þeir verða lagðir hér fyrir og ræddir á Alþingi.“

Samningarnir eru fráleitir, sagt er að með þeim verði kvótakerfi í mjólkuriðnaði afnumið. Það á að gera eftir fimm ár en áður en til þess kemur á að endurskoða samninginn svo það er ekkert í hendi um að þessi breyting verði.

Ég er ekki á móti stuðningi við bændur, ég tel að við eigum að verja fjármunum til að halda landinu í byggð. En það skiptir máli hvaða aðferðum er beitt og það skiptir máli hve miklum fjármunum við verjum til þess arna.

Það er bjargföst skoðun mín að það er beinlínis fáránlegt að hækka nú fjárframlög sem fara í stuðning við bændur. Við höfum annað við 900 milljónir á ári að gera en að bæta þeim við styrkjaupphæð til landbúnaðar. Við eigum þvert á móti að gera áætlun um að draga úr styrkjum og koma á samkeppni í afurðasölunni. Við eigum að afnema tollvernd og auka þannig við samkeppni á markaði.

Sannleikurinn er sá að þetta er framsóknarsamningur gerður á milli framsóknarmanna í bakherbergjum. Það sem verra er, skynsamari framsóknarmenn lutu í lægra haldi fyrir þeim óbilgjarnari.

Samráð hefur ekkert verið, en nú hefur fjármálaráðherrann staðfest að samningurinn verði lagður fyrir Alþingi og ræddur þar. Því ber að fagna.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×