Fótbolti

Sér ekki eftir því að hafa farið frá Barca til Arsenal

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexis Sanchez mætir sínu gamla félagi á morgun er Barcelona kemur í heimsókn á Emirates-völlinn, heimavöll Arsenal.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Sanchez spilar gegn Barcelona en hann fór til Arsenal sumarið 2014. Hann er þegar búinn að vinna enska bikarinn með Arsenal og stefnir á fleiri titla með félaginu.

„Ég sé aldrei eftir mínum ákvörðunum. Það var samt ekkert auðvelt að yfirgefa Barcelona. Ég var að uppfylla draum er ég fór til félagsins. Fáir eru samt hjá sama félaginu allan ferilinn,“ sagði Sanchez en hann lék í þrjú ár fyrir Barcelona.

„Mig vantaði nýtt verkefni og nýja áskorun. Það voru margir sóknarmenn hjá Barcelona og því var rétt að yfirgefa félagið. Það var líka góð ákvörðun að fara til Arsenal. Það var jákvætt skref og ég nýt mín hjá félaginu.“

Sanchez segist ekki vera viss um hvort hann fagni ef hann skorar í leiknum.

„Ég veit ekki hvað gerist. Það verður eiginlega bara að ráðast ef það gerist.“

Leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×