Innlent

Sigrún liggur undir forsetafeldi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrún Stefánsdóttir veltir fyrir sér framboði til forseta Íslands.
Sigrún Stefánsdóttir veltir fyrir sér framboði til forseta Íslands. Vísir/Stefán
Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlakona og fráfarandi forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri segir að margir hafi skorað á hana að bjóða sig fram sem næsta forseta Íslands. Þetta kemur fram í viðtali við Sigrúnu í Akureyri vikublað.

Hún veltir fyrir sér hvers vegna samfélagið ákveði að senda reynslubolta með fulla starfsorku heim í eldhúskrókinn líkt og í hennar tilfelli sem þarf að láta af störfum sökum aldurs. Sigrún verður sjötug á næsta ári.

„Ef heilsan og hausinn klikkar ekki ætti fólk að fá að halda áfram,“ segir Sigrún. Hún vísar til Bandaríkjanna þar sem 70 ára aldurinn er ekki lengur viðmiðið. Fólk hætti þegar það vill hætta.

„Það er athyglisvert að sjá hversu hversu gamlir forsetaframbjóðendur eru þar í landi. Það segir sitt og kannski ætti ég bara að feta í þeirra fótspor!“

Umræða um framboð sé þó ekki lengra komin.

„Ég hef bara legið undir feldi og metið stöðuna.“

Forsetakosningar verða haldnar þann 25. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×