Handbolti

Þjálfari Gróttu: Pressan er öll á Val

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Gunnar segir sínum mönnum til í kvöld.
Gunnar segir sínum mönnum til í kvöld. vísir/ernir
Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, var skiljanlega sáttur með sigurinn á Stjörnunni í kvöld og sætið í úrslitaleik bikarkeppninnar.

"Þetta var hörkuleikur allan tímann," sagði Gunnar eftir leik.

"Varnarleikurinn var ekkert spes í fyrri hálfleik og það tók okkur tíma að hrista þá af okkur sem er ekkert skrítið þar sem þeir eru með hörkulið. Við þurftum að hafa virkilega mikið fyrir þessum sigri," bætti Gunnar við.

Hann hrósaði Stjörnuliðinu, sem situr á toppnum í 1. deildinni, fyrir sína frammistöðu í kvöld.

"Ég hamraði á því alla vikuna að við gætum ekki leyft okkur neina værukærð. Og við sáum það í dag, við þurftum að hafa mikið fyrir sigrinum," sagði Gunnar sem var að vonum sáttur með innkomu Lárusar Gunnarssonar sem varði helming þeirra skota sem hann fékk á sig eftir að hann kom í markið undir lok fyrri hálfleiks.

"Lárusi hefur farið gríðarlega mikið fram í vetur, þótt hann hafi kannski staðið aðeins í skugga Lárusar Helga (Ólafssonar) sem kom slappur í leikinn í dag."

Grótta mætir Val í úrslitaleiknum á morgun en ekki er langt síðan þessi sömu lið áttust við í Olís-deildinni. Þá hafði Grótta betur, 23-24.

"Við þekkjum Val ágætlega og erum að fara að mæta liði sem er miklu sterkara á pappírnum en við. En litlu liðin geta strítt þeim stóru eins og við sýndum um daginn á Hlíðarenda. Pressan verður öll á þeim," sagði Gunnar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×