Íslenski boltinn

Bikarúrslitaleikur kvenna fer fram kvöldið fyrir bikarúrslitaleik karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjarnan og Selfoss hafa mæst í bikarúrslitum kvenna undanfarin tvö ár.
Stjarnan og Selfoss hafa mæst í bikarúrslitum kvenna undanfarin tvö ár. Vísir/Anton
Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að breyta aðeins uppröðun sinni á bikarúrslitaleikjum karla og kvenna á komandi knattspyrnusumri.

Bikarúrslitaleikirnir fara nú fram sömu helgi, það er á föstudegi og laugardegi en minna en sólarhringur verður því á milli bikarúrslitaleik karla og kvenna.

Bikarúrslitaleikur kvenna hefst klukkan 19.15 föstudagskvöldið 12. ágúst en úrslitaleikurinn karlanna hefst rúmum tuttugu tímum síðar eða klukkan 16.00 laugardaginn 13. ágúst.

Á síðasta tímabili liðu tvær vikur á milli bikarúrslitaleikjanna. Karlarnir spiluðu þá sinn úrslitaleik laugardaginn 15. ágúst en úrslitaleikur kvenna fór ekki fram fyrr en fjórtán dögum síðar eða laugardaginn 29. ágúst.

Það var sama upp á teningnum sumarið 2014 (16. og 30. ágúst) en vika var á milli leikjanna sumrin 2011, 2012 og 2013.

Það þarf því að fara aftur til ársins 2010 til að finna helgi þar sem báðir bikarúrslitaleikirnir fóru fram. Haustið 2010 fór karlaleikurinn fram á laugardegi en kvennaleikurinn var síðan spilaður á sunnudegi.

Það var jafnframt í fyrsta sinn í mörg ár sem úrslitaleikirnir fóru fram í ágúst en ekki eftir síðustu umferð Íslandsmótsins í október.

Dregið hefur verið vegna leikjaniðurröðunar í Borgunarbikar karla og kvenna. Borgunarbikar karla fer af stað þann 30. apríl en konurnar hefja leik 8. maí.

Lið úr Pepsi-deildinni mæta til leiks í 32 liða úrslitum Borgunarbikars karla sem hefjast 25. maí. Lið úr Pepsi-deild kvenna koma inn í sextán liða úrslit Borgunarbikars kvenna sem hefjast 11. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×