Fótbolti

Keane: Hazard er eins og ofdekrað barn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hazard fór af velli eftir 71 mínútu í leiknum gegn PSG.
Hazard fór af velli eftir 71 mínútu í leiknum gegn PSG. vísir/getty
Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, hefur gagnrýnt Eden Hazard, leikmann Chelsea, harkalega og kallað hann ofdekrað barn.

Chelsea tapaði 2-1 fyrir Paris Saint-Germain í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrradag. Í aðdraganda leiksins gaf Hazard PSG heldur betur undir fótinn sem Keane var ekki sáttur með.

Sjá einnig: Hiddink segir Hazard að gleyma PSG | Óheppileg ummæli Belgans

„Ég skil ekki svona leikmenn. Hann framlengdi samning sinn við Chelsea í fyrra þegar hann sýndi hversu góður hann er,“ sagði Keane.

„Og svo kemur hann með svona þvælu fyrir risaleik. Ef ég væri samherji hans myndi ég sparka duglega í hann á æfingum. Einhverjir af eldri leikmönnum Chelsea þurfa að taka hann í gegn,“ bætti Keane við, grjótharður að vanda.

Hazard var valinn leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildarinnar í fyrra en hefur engan veginn fundið sig á þessu tímabili. Belginn á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni en hann gerði 14 mörk í fyrra.

„Þetta er gríðarlega hæfileikaríkur strákur en viðhorfið er ekki rétt. Hann er eins og ofdekraður krakki. Þetta er fáránlegt,“ sagði Keane ennfremur um hinn 25 ára gamla Hazard sem kom til Chelsea frá Lille 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×