Skoðun

Veljum formann

Kjartan Valgarðsson skrifar

Við jafnaðarmenn erum í smávanda með forystumál. Búið er að flýta landsfundi, gagngert til að eyða allri óvissu um forystuna, varaformaðurinn hefur ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram til þings og núverandi formaður hefur ekki ákveðið hvort hann gefi kost á sér aftur. Og hvað gerum við jafnaðarmenn við slíkar aðstæður?



Margir gera ráð fyrir að fram fari almenn atkvæðagreiðsla um nýjan formann. Sú aðferð hefur marga ókosti, hún setur flokksmenn í skotgrafir þar sem hver berst fyrir sinn mann með þeim spilltu smölunaraðferðum, peningum og auglýsingamennsku sem því fylgir. Slíkur leðjuslagur er það sem við þurfum síst á að halda núna.



Leysum okkar forystumál eins og við myndum leysa vandamál heima hjá okkur. Setjumst niður og ræðum saman um hver er heppilegastur eða heppilegust til að leiða jafnaðarmenn í næstu kosningum. Verum ákveðin í að komast að sameiginlegri niðurstöðu, leyfum okkur að vera minna vandlát en venjulega, hengjum okkur ekki á okkar eina rétta kandidat, verum tilbúin til að gefa eftir til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Gerum val á formanni flokksins að sameinandi ferli sem gerir okkur sterkari eftir, ánægð og stolt yfir að hafa náð sameiginlegri niðurstöðu.



Eftir því sem næst verður komist koma helst fjórir einstaklingar til geina til að veita jafnaðarmannahreyfingunni forystu: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram og Oddný Harðardóttir. Ræðum kost og löst á þeim. Hvert þeirra er heppilegasti formaðurinn og líklegast til að auka jafnaðarmannahreyfingunni fylgi og koma því í verk sem við öll stefnum að: Bæta kjör fólks, koma á réttlátri skiptingu auðlindaarðsins, stöðva vaxtaokrið, tryggja réttlátar stjórnarskrárbreytingar, leysa húsnæðisvanda ungs fólks, auka jöfnuð. Vandi fylgir vegsemd hverri.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×