Handbolti

Guðmundur verður á heimavelli í baráttunni um Ólympíusætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson þjálfar danska landsliðið.
Guðmundur Guðmundsson þjálfar danska landsliðið. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins í handbolti, fær forskot fyrir liðið sitt í forkeppni Ólympíuleikanna í apríl.

Danir verða á heimavelli í sínum riðli og munu leikirnir fara fram í Jyske Bank Boxen í Herning. Alþjóðahandboltasambandið hefur staðfest hvaða þrjár þjóðir fá að vera á heimavelli.

Danir mæta Króötum, Norðmönnum og Barein í riðlinum sínum og tvær efstu þjóðirnar komast á Ólympíuleikana í Ríó.

Króatar (brons) og Norðmenn (4. sæti) voru fyrir ofan danska liðið á Evrópumótinu í Póllandi á dögunum og því verður þetta allt annað en auðvelt verkefni fyrir Guðmund og leikmenn hans.

Danir byrja á leik við Króatíu og spilað síðan við Norðmenn daginn eftir. Lokaleikurinn er síðan við Barein en þá ætti það að vera orðið ljóst hvort danska liðið kemst á ÓL eða ekki.

Pólverjar og Svíar eru á heimavelli í hinum tveimur riðlinum. Fyrsti riðillinn fer fram í Gdańsk í Póllandi þar sem Pólland, Makedónía, Síle og Túnis keppa um tvö sæti. Svíar halda sinn riðil í Malmö og þar keppa þeir við Spán, Slóveníu og Íran um tvö laus sæti á ÓL.

Allir leikirnir fara fram frá 8. til 10. apríl næstkomandi.


Tengdar fréttir

Guðmundur: Vantar allt drápseðli í liðið

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, segir vanta allt drápseðli í leikmenn sína eftir að liðinu mistókst að komast upp úr milliriðlinum á EM í Póllandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×