Handbolti

Staffan Olsson ekki til í að fórna faxinu fyrir Ólympíusæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Staffan Olsson.
Staffan Olsson. Vísir/EPA
Staffan Olsson er að hætta sem þjálfari sænska handboltalandsliðsins en nú er bara spurning um hvort það verði eftir EM eða hvort liðið komist á Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu.

Svíar þurfa hagstæð úrslit út úr tveimur síðustu leikjum sínum í milliriðlinum á EM í Póllandi ætli þeir að komast í umspilið. Liðið mætir Dönum í dag og Ungverjum á morgun.  Svíar eru eins og er tveimur stigum á eftir Rússum sem eiga bara einn leik eftir og hann er á móti Spáni.

Staffan Olsson og Ola Lindgren eru búnir að vera með sænska landsliðið í sjö ár en hafa ákveðið að segja þetta gott.

„Allt tekur einhvern tímann enda. Ég vil lifa í núinu og það væri frábært að koma sænska liðinu inn á Ólympíuleikana. Það er draumurinn," sagði Staffan Olsson við Expressen.

„Ég held að ég og Ola höfum staðið okkur vel. Við höfum gert mistök en líka fullt af góðum hlutum. Heilt yfir hefur þetta gengið ágætlega," sagði Olsson. Besti árangur liðsins er þegar Svíar náðu í silfur á ÓL í London en Staffan Olsson sjálfur vann þrjú silfurverðlaun á ÓL sem leikmaður sænska liðsins.

Staffan Olsson er þekktur fyrir sitt mikla hár sem hann hefur verið með alla tíð síðan að hann var leikmaður sænska landsliðsins.

Staffan Olsson eða Faxi eins og hann var kallaður var einn af aðalóvinum íslensku þjóðarinnar þegar hann og félagar í sænska landsliðið fóru illa með íslensku strákana.

Staffan Olsson er ekki tilbúinn að fórna hárinu fyrir sæti á Ólympíuleikum.

„Nei. Ég veðjaði hárinu á einum Ólympíuleikum ef okkur tækist að vinna gullið en hér eftir ætla ég að reyna að halda hárinu mínu eins lengi og ég get," sagði Staffan.

Staffan Olsson er ekki aðeins þjálfari sænska landsliðsins því hann er einnig aðstoðarþjálfari Zvonimir Serdarusic hjá Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×