Innlent

Aðstoðarlögreglustjóri neitar að tjá sig um spillinguna

Snærós Sindradóttir skrifar
„Ég vil ekkert tjá mig um þetta og tel það ekki eðlilegt á þessu stigi,“ segir Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, um málefni lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild sem ítrekað hefur verið bent á að leki upplýsingum til brotamanna.

Í Fréttablaðinu á laugardag benti Karl Steinar Valsson, fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar og undirmaður Jóns, á yfirmenn sína, þá Jón og Friðrik Smára Björgvinsson, og sagði að hann hefði komið til þeirra greinargerð í kjölfar þess að gerðar voru athugasmdir við störf lögreglufulltrúans. 

Karl Steinar og lögreglufulltrúinn störfuðu afar náið saman í fíkniefnadeildarinnar á árum Karls Steinars sem yfirmanns deildarinnar.Vísir/Ernir
Yfirmenn báru ábyrgð á að koma þeirri greinargerð áfram til ríkissaksóknara en það var ekki gert samkvæmt heimildum blaðsins.

Engin formleg rannsókn hefur því farið fram á málefnum lögreglufulltrúans þrátt fyrir að samstarfsfélagar hafi í áraraðir reynt að koma fram ábendingum um óeðlileg samskipti við brotamenn. Maðurinn hefur á nokkurra mánaða tímabili verið færður þrisvar sinnum til í starfi. 

Fulltrúinn gegnir ekki lengur yfirmannsstöðu í fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu heldur starfar nú í tæknideild. Eitt af hans síðustu verkefnum sem yfirmaður í fíkniefnadeild var að stýra aðgerðum á vettvangi í tálbeituaðgerð sem fór út um þúfur við Hótel Frón í apríl í fyrra.

Þá gegndi hann raunar yfirmannsstöðu í bæði fíkniefna- og upplýsingadeild sem er gagnrýnisvert  fyrirkomulag sem þekkist ekki í nágrannalöndum okkar. Þannig hafði hann allar upplýsingar um uppljóstrara og gat að sama skapi tekið ákvarðanir er sneru að rannsóknum innan fíkniefnadeildar.


Tengdar fréttir

Þrálátur orðrómur um leka vakti grun

Grunur leikur á að lögreglumaður hafi fengið greitt fyrir upplýsingar til brotahópa. "Það getur hafa átt sér stað þvingun sem enginn veit af,“ segir lögreglustjóri og minnir á að málið sé enn í rannsókn.

Fullyrti að rannsókn hefði farið fram

Karl Steinar Valsson tjáði starfsmönnum fíkniefnadeildar að alvarlega ásakanir á hendur lögreglumanni í deildinni hefðu verið rannsakaðar og enginn fótur reynst fyrir þeim. Málið var aldrei formlega rannsakað.

Þöggun í kringum rannsókn

Atli Gíslason fór fyrir viðamikilli rannsókn á störfum lögreglu fyrir tuttugu árum. Skýrslan var aldrei gerð opinber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×