Snæfellsjökull og vísindin Stefán Pálsson skrifar 3. janúar 2016 12:00 Árið 1864 sendi franski rithöfundurinn Jules Verne frá sér bókina „Voyage au centre de la Terre“, sem kom út á íslensku fyrir rúmum tveimur árum í þýðingu Friðriks Rafnssonar undir sínum rétta titli „Ferðin að miðju jarðar“. Fram að því höfðu Íslendingar þekkt söguna undir öllu sjálfhverfara heiti: „Leyndardómar Snæfellsjökuls“. Skiljanlega þótt Íslendingum mikið til þess koma að landið kæmi við sögu í frægu verki eftir einn kunnasta höfund veraldar og raunar gerist um fimmtungur sögunnar á Íslandi. Sérvitur þýskur vísindamaður, prófessor Lidenbrock, kemst á snoðir um að íslenski gullgerðarmaðurinn og handritagrúskarinn Arne Saknussemm hafi mörgum öldum áður uppgötvað leið niður í iður jarðar frá toppi Snæfellsjökuls. Prófessorinn heldur ásamt ungum frænda sínum til Íslands og með hjálp íslensks leiðsögumanns finna þeir opið. Neðanjarðar bíða félaganna ýmis ævintýri, jafnt furðuleg jarðfræðileg fyrirbæri og flókið lífríki í ógnarstórum hvelfingum sem lýstar eru upp með torkennilegu jarðgasi. Meðal þess sem fyrir augu ber eru flennistór skordýr, sveppir á stærð við hæstu tré, risaeðlur og risavaxnar verur í mannsmynd. Að lokum skilar félögunum aftur upp á yfirborðið á eldfjallinu Stromboli á Ítalíu.Úr lausu lofti gripið? Ferðin að miðju jarðar er ævintýraleg bók og virðist við fyrstu sýn óvenjuleg fyrir höfundinn. Jules Verne var konungur vísindaskáldsagnanna og flestar sögur hans byggðu á nýjustu uppfinningum og kenningum á sviði tækni og vísinda. Þannig varði hann miklu púðri í „Ferðinni til tunglsins“ í að útskýra tæknilegar forsendur geimskotsins og velti vöngum yfir því hvernig aðdráttarafl myndi verka á geimfarana á leiðinni. Taldi Verne að þeir myndu einungis upplifa þyngdarleysi um skamma hríð rétt á meðan jörðin og tunglið toguðu þá til sín með sama krafti. Jules Verne var nákvæmnismaður og þótt sögur hans væru vissulega skáldskapur var honum umhugað um að þær væru ekki alveg út í bláinn. Til marks um það er lýsing höfundarins á Íslandi og íslensku samfélagi frekar trúverðug. Verne hafði þar til hliðsjónar ferðasögur og myndir úr Íslandsleiðöngrum. Sagnfræðingurinn Sumarliði Ísleifsson, sem öðrum fremur hefur rannsakað skrif erlendra ferðalanga um Ísland, bendir á að við lestur bókarinnar mætti auðveldlega ætla að Jules Verne hefði komið sjálfur til Íslands. En það merkilegasta við Ferðina að miðju jarðar er að meira að segja hin fjarstæðukennda atburðarás eftir að komið er ofan í Snæfellsjökul átti sér vísindalegar forsendur.Ísaldir og risaeðlur Sagan var skrifuð rétt eftir að út kom vísindaritið „Geological Evidences of the Antiquity of Man“ eftir breska náttúruvísindamanninn Charles Lyell. Bókin sú er í dag flestum gleymd öðrum en vísindasagnfræðingum, en hafði á sínum tíma gríðarlega mikil áhrif. Þar var fjallað um ýmislegt sem tengdist jarðsögu og sett fram kenningin um að ísaldir og hlýindaskeið skiptust á á jörðinni. Út frá steingervingum var fjallað um ólíkt gróðurfar og dýralíf eftir tímabilum og síðast en ekki síst rætt um forsöguleg samfélög manna, þar sem Lyell vildi ekki útiloka að mannskepnan hefði þróast og tekið breytingum í gegnum tíðina. Þótt vísindamönnum væri kunnugt um mörg þessara atriða, var nokkuð aðra sögu að segja um almenning. Hugmyndin um frumstæða steinaldarmenn og horfnar furðuskepnur var byltingarkennd fyrir fólk á nítjándu öld, enda skammt síðan aldur jarðar hafði verið talinn í þúsundum ára frekar milljónum eða milljörðum. Áhugi margra á forsögulegum tíma kviknaði og það var sá áhugi sem Jules Verne vildi fanga með sögunni um ævafornt lífríki sem varðveist hefði undir fótum okkar og hugmyndinni um risavaxna menn, enda höfðu Vesturlandabúar lengi klórað sér í kollinum yfir þeirri frásögn Biblíunnar að í árdaga hafi risar gengið á jörðinni. En hvað þá með sögusviðið: búsældarlegar, hlýjar og upplýstar risahvelfingar djúpt í iðrum jarðar? Hlaut það ekki að vera hreinn uppspuni úr penna franska rithöfundarins? - Nei, þótt ótrúlegt kunni að virðast var sá þáttur sögunnar heldur ekki alveg út í bláinn.Hugmyndaríkur halastjörnufræðingur Láki jarðálfur bjó ofan í jörðinni ásamt foreldrum sínum Snjáka og Snjóku, uns hann afréð að fara upp á yfirborðið til að gera at í pabbanum með því að troða púðri í pípuna og hella rauðgraut yfir hvítan köttinn. Ævintýrið um Láka átti sér ótal fyrirmyndir því trúarbrögð flestra þekktra menningarsamfélaga gera ráð fyrir einhvers konar neðanjarðarbyggð, ýmist dverga og trölla eða dauðramannaríkjum. Þóttu það sjaldnast góðar vistarverur. Hugmyndin um innri jarðir færðist af sviði trúarbragðanna inn á borð vísindanna undir lok sautjándu aldar. Enski stjörnu- og stærðfræðingurinn Edmond Halley setti þá fram kenningu um að jörðin væri í raun bara tiltölulega þunn skorpa (800 kílómetrar eða þar um bil), en innan í henni væri svo önnur skorpa og svo koll af kolli, líkt og lagskiptur laukur eða rússneskar trédúkkur: matrúskur. Taldi hann ekki ólíklegt að stærð þessara innri hnatta samsvaraði grannreikistjörnunum: Mars, Venusi og Merkúr. Milli þessara innri hnatta væri holrými með andrúmslofti og einhvers konar gastegundum sem gæfu ljós og mögulega yl. Halley taldi því alls ekkert útilokað að einhvers konar líf og jafnvel manneskjur gætu þrifist þar. Spurningin um líf í iðrum jarðar var þó algjört aukaatriði í kenningu Halleys, heldur var tilgátan sett fram til að skýra misræmið á milli segulpóla jarðar og hinna raunverulegu heimskauta. Þá taldi stjörnufræðingurinn sig geta skýrt fyrirbærin norður- og suðurljós, þar sem augljóslega væri um ræða lýsandi gastegundir sem sloppið hefðu út um göt á jarðarskorpunni sem greinilega væri að finna í grennd við báða pólana. Halley var enginn dellumakari, heldur einn virtasti vísindamaður sinnar tíðar og annar maðurinn til að gegna embætti hirðstjörnufræðings í heimalandi sínu. Í dag er hann kunnastur fyrir rannsóknir sínar á halastjörnu þeirri sem ber nafn hans, en sjálfur taldi hann þó kenningarnar um hina margskiptu jörð síst veigaminni. Þegar kunnur listamaður var fenginn til að mála mynd af Halley, kaus hann sjálfur að láta uppdrátt sinn af mögulegum innviðum jarðar sjást með áberandi hætti. Hugmynd Halleys eignaðist ekki marga fylgismenn, enda hafði hún þann galla að vera ósannreynanleg og skýrði svo sem ekki mikið annað en skekkjuna í segulsviði jarðar. Sjálf norðurljósin mátti skýra með mun einfaldari hætti en að þau væru nokkurs konar fretur jarðar, enda rýmdust þau ágætlega innan ríkjandi hugmynda um undraefnið ljósvakann sem himingeimurinn var talinn fullur af. Engir stórir spámenn í vísindaheiminum fengust til að halda þessari hugmynd Halleys á lofti eftir hans dag og það voru fremur menn á jaðri vísindaheimsins sem héldu áfram að daðra við kenningar um innri jörð. Þær áttu þó yfirleitt sameiginlegt að líta á jörðina sem tóma kúlu og í miðju hennar væri annað hvort ein sól eða tvær, sem sæju innanverðri jörðinni fyrir ljósi og varma. Til að auka trúverðugleika þessarar kenningar var hún oft eignuð svissneska átjándu aldar stærðfræðingnum Max Euler, en það mun þó vera rangt.Siglt að miðju jarðar? Ekki þurfti mikla eðlisfræðikunnáttu til að sjá gloppurnar í tilgátunni um hola jörð með sól í miðjunni. Þannig var erfitt að sjá fyrir sér hvernig aðdráttaraflið ætti að virka, í það minnsta á jarðarskorpunni innanverðri. Skorpan þyrfti í það minnsta að vera ansi þykk til að allt lauslegt félli ekki inn að kjarnanum. En eðlisfræðileg smáatriði vöfðust ekki fyrir fylgismönnum kenningarinnar sem sáu fyrir sér stórkostlegt lífríki, sem hlyti að hafa þróast með allt öðrum hætti en á jörðinni utanverðri, þó ekki væri nema vegna hins sífellda sólarljóss. Aðrir létu sig dreyma um að tiltölulega greið leið væri inn fyrir jarðarskelina. Sú var í það minnsta fullvissa Bandaríkjamannsins Johns Cleves Symmes Jr., yfirmanns í flota Bandaríkjahers, sem sannfærðist um það skömmu eftir Napóleonsstyrjaldirnar að jörðin væri hol. Og ekki nóg með það, taldi Symmes að í grennd við báða pólana væru op með svo mikilli sveigju að hrekklausir sæfarar gætu siglt inn á ranghverfan hnöttinn án þess að taka eftir neinu. Í gegnum þessi op skini sólarljós sem endurkastaðist með flóknum hætti þannig að innan jarðar væri bjart og hlýtt og því vafalítið auðugt jurta- og dýralíf, ef ekki hreinlega mannabyggð. Symmes varði óhemju tíma og fjárhæðum í að kynna þessa hugmynd sína. Hún féll í grýttan jarðveg hjá vísindamönnum, en listamenn voru ginnkeyptari. Þannig greip bandaríski rithöfundurinn Edgar Alan Poe til þeirra í sinni einu skáldsögu, frá árinu 1838: Um ævintýri Arthurs Gordon Pym frá Nantucket. Það verk er raunar þekktast í dag sem aðalfyrirmyndin að Moby Dick eftir Hermann Melville. En eftir stendur að Jules Verne var ekki algjörlega að bulla út í loftið í Leyndardómum Snæfellsjökuls… þótt Saknussemm muni seint teljast íslenskt mannsnafn. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Árið 1864 sendi franski rithöfundurinn Jules Verne frá sér bókina „Voyage au centre de la Terre“, sem kom út á íslensku fyrir rúmum tveimur árum í þýðingu Friðriks Rafnssonar undir sínum rétta titli „Ferðin að miðju jarðar“. Fram að því höfðu Íslendingar þekkt söguna undir öllu sjálfhverfara heiti: „Leyndardómar Snæfellsjökuls“. Skiljanlega þótt Íslendingum mikið til þess koma að landið kæmi við sögu í frægu verki eftir einn kunnasta höfund veraldar og raunar gerist um fimmtungur sögunnar á Íslandi. Sérvitur þýskur vísindamaður, prófessor Lidenbrock, kemst á snoðir um að íslenski gullgerðarmaðurinn og handritagrúskarinn Arne Saknussemm hafi mörgum öldum áður uppgötvað leið niður í iður jarðar frá toppi Snæfellsjökuls. Prófessorinn heldur ásamt ungum frænda sínum til Íslands og með hjálp íslensks leiðsögumanns finna þeir opið. Neðanjarðar bíða félaganna ýmis ævintýri, jafnt furðuleg jarðfræðileg fyrirbæri og flókið lífríki í ógnarstórum hvelfingum sem lýstar eru upp með torkennilegu jarðgasi. Meðal þess sem fyrir augu ber eru flennistór skordýr, sveppir á stærð við hæstu tré, risaeðlur og risavaxnar verur í mannsmynd. Að lokum skilar félögunum aftur upp á yfirborðið á eldfjallinu Stromboli á Ítalíu.Úr lausu lofti gripið? Ferðin að miðju jarðar er ævintýraleg bók og virðist við fyrstu sýn óvenjuleg fyrir höfundinn. Jules Verne var konungur vísindaskáldsagnanna og flestar sögur hans byggðu á nýjustu uppfinningum og kenningum á sviði tækni og vísinda. Þannig varði hann miklu púðri í „Ferðinni til tunglsins“ í að útskýra tæknilegar forsendur geimskotsins og velti vöngum yfir því hvernig aðdráttarafl myndi verka á geimfarana á leiðinni. Taldi Verne að þeir myndu einungis upplifa þyngdarleysi um skamma hríð rétt á meðan jörðin og tunglið toguðu þá til sín með sama krafti. Jules Verne var nákvæmnismaður og þótt sögur hans væru vissulega skáldskapur var honum umhugað um að þær væru ekki alveg út í bláinn. Til marks um það er lýsing höfundarins á Íslandi og íslensku samfélagi frekar trúverðug. Verne hafði þar til hliðsjónar ferðasögur og myndir úr Íslandsleiðöngrum. Sagnfræðingurinn Sumarliði Ísleifsson, sem öðrum fremur hefur rannsakað skrif erlendra ferðalanga um Ísland, bendir á að við lestur bókarinnar mætti auðveldlega ætla að Jules Verne hefði komið sjálfur til Íslands. En það merkilegasta við Ferðina að miðju jarðar er að meira að segja hin fjarstæðukennda atburðarás eftir að komið er ofan í Snæfellsjökul átti sér vísindalegar forsendur.Ísaldir og risaeðlur Sagan var skrifuð rétt eftir að út kom vísindaritið „Geological Evidences of the Antiquity of Man“ eftir breska náttúruvísindamanninn Charles Lyell. Bókin sú er í dag flestum gleymd öðrum en vísindasagnfræðingum, en hafði á sínum tíma gríðarlega mikil áhrif. Þar var fjallað um ýmislegt sem tengdist jarðsögu og sett fram kenningin um að ísaldir og hlýindaskeið skiptust á á jörðinni. Út frá steingervingum var fjallað um ólíkt gróðurfar og dýralíf eftir tímabilum og síðast en ekki síst rætt um forsöguleg samfélög manna, þar sem Lyell vildi ekki útiloka að mannskepnan hefði þróast og tekið breytingum í gegnum tíðina. Þótt vísindamönnum væri kunnugt um mörg þessara atriða, var nokkuð aðra sögu að segja um almenning. Hugmyndin um frumstæða steinaldarmenn og horfnar furðuskepnur var byltingarkennd fyrir fólk á nítjándu öld, enda skammt síðan aldur jarðar hafði verið talinn í þúsundum ára frekar milljónum eða milljörðum. Áhugi margra á forsögulegum tíma kviknaði og það var sá áhugi sem Jules Verne vildi fanga með sögunni um ævafornt lífríki sem varðveist hefði undir fótum okkar og hugmyndinni um risavaxna menn, enda höfðu Vesturlandabúar lengi klórað sér í kollinum yfir þeirri frásögn Biblíunnar að í árdaga hafi risar gengið á jörðinni. En hvað þá með sögusviðið: búsældarlegar, hlýjar og upplýstar risahvelfingar djúpt í iðrum jarðar? Hlaut það ekki að vera hreinn uppspuni úr penna franska rithöfundarins? - Nei, þótt ótrúlegt kunni að virðast var sá þáttur sögunnar heldur ekki alveg út í bláinn.Hugmyndaríkur halastjörnufræðingur Láki jarðálfur bjó ofan í jörðinni ásamt foreldrum sínum Snjáka og Snjóku, uns hann afréð að fara upp á yfirborðið til að gera at í pabbanum með því að troða púðri í pípuna og hella rauðgraut yfir hvítan köttinn. Ævintýrið um Láka átti sér ótal fyrirmyndir því trúarbrögð flestra þekktra menningarsamfélaga gera ráð fyrir einhvers konar neðanjarðarbyggð, ýmist dverga og trölla eða dauðramannaríkjum. Þóttu það sjaldnast góðar vistarverur. Hugmyndin um innri jarðir færðist af sviði trúarbragðanna inn á borð vísindanna undir lok sautjándu aldar. Enski stjörnu- og stærðfræðingurinn Edmond Halley setti þá fram kenningu um að jörðin væri í raun bara tiltölulega þunn skorpa (800 kílómetrar eða þar um bil), en innan í henni væri svo önnur skorpa og svo koll af kolli, líkt og lagskiptur laukur eða rússneskar trédúkkur: matrúskur. Taldi hann ekki ólíklegt að stærð þessara innri hnatta samsvaraði grannreikistjörnunum: Mars, Venusi og Merkúr. Milli þessara innri hnatta væri holrými með andrúmslofti og einhvers konar gastegundum sem gæfu ljós og mögulega yl. Halley taldi því alls ekkert útilokað að einhvers konar líf og jafnvel manneskjur gætu þrifist þar. Spurningin um líf í iðrum jarðar var þó algjört aukaatriði í kenningu Halleys, heldur var tilgátan sett fram til að skýra misræmið á milli segulpóla jarðar og hinna raunverulegu heimskauta. Þá taldi stjörnufræðingurinn sig geta skýrt fyrirbærin norður- og suðurljós, þar sem augljóslega væri um ræða lýsandi gastegundir sem sloppið hefðu út um göt á jarðarskorpunni sem greinilega væri að finna í grennd við báða pólana. Halley var enginn dellumakari, heldur einn virtasti vísindamaður sinnar tíðar og annar maðurinn til að gegna embætti hirðstjörnufræðings í heimalandi sínu. Í dag er hann kunnastur fyrir rannsóknir sínar á halastjörnu þeirri sem ber nafn hans, en sjálfur taldi hann þó kenningarnar um hina margskiptu jörð síst veigaminni. Þegar kunnur listamaður var fenginn til að mála mynd af Halley, kaus hann sjálfur að láta uppdrátt sinn af mögulegum innviðum jarðar sjást með áberandi hætti. Hugmynd Halleys eignaðist ekki marga fylgismenn, enda hafði hún þann galla að vera ósannreynanleg og skýrði svo sem ekki mikið annað en skekkjuna í segulsviði jarðar. Sjálf norðurljósin mátti skýra með mun einfaldari hætti en að þau væru nokkurs konar fretur jarðar, enda rýmdust þau ágætlega innan ríkjandi hugmynda um undraefnið ljósvakann sem himingeimurinn var talinn fullur af. Engir stórir spámenn í vísindaheiminum fengust til að halda þessari hugmynd Halleys á lofti eftir hans dag og það voru fremur menn á jaðri vísindaheimsins sem héldu áfram að daðra við kenningar um innri jörð. Þær áttu þó yfirleitt sameiginlegt að líta á jörðina sem tóma kúlu og í miðju hennar væri annað hvort ein sól eða tvær, sem sæju innanverðri jörðinni fyrir ljósi og varma. Til að auka trúverðugleika þessarar kenningar var hún oft eignuð svissneska átjándu aldar stærðfræðingnum Max Euler, en það mun þó vera rangt.Siglt að miðju jarðar? Ekki þurfti mikla eðlisfræðikunnáttu til að sjá gloppurnar í tilgátunni um hola jörð með sól í miðjunni. Þannig var erfitt að sjá fyrir sér hvernig aðdráttaraflið ætti að virka, í það minnsta á jarðarskorpunni innanverðri. Skorpan þyrfti í það minnsta að vera ansi þykk til að allt lauslegt félli ekki inn að kjarnanum. En eðlisfræðileg smáatriði vöfðust ekki fyrir fylgismönnum kenningarinnar sem sáu fyrir sér stórkostlegt lífríki, sem hlyti að hafa þróast með allt öðrum hætti en á jörðinni utanverðri, þó ekki væri nema vegna hins sífellda sólarljóss. Aðrir létu sig dreyma um að tiltölulega greið leið væri inn fyrir jarðarskelina. Sú var í það minnsta fullvissa Bandaríkjamannsins Johns Cleves Symmes Jr., yfirmanns í flota Bandaríkjahers, sem sannfærðist um það skömmu eftir Napóleonsstyrjaldirnar að jörðin væri hol. Og ekki nóg með það, taldi Symmes að í grennd við báða pólana væru op með svo mikilli sveigju að hrekklausir sæfarar gætu siglt inn á ranghverfan hnöttinn án þess að taka eftir neinu. Í gegnum þessi op skini sólarljós sem endurkastaðist með flóknum hætti þannig að innan jarðar væri bjart og hlýtt og því vafalítið auðugt jurta- og dýralíf, ef ekki hreinlega mannabyggð. Symmes varði óhemju tíma og fjárhæðum í að kynna þessa hugmynd sína. Hún féll í grýttan jarðveg hjá vísindamönnum, en listamenn voru ginnkeyptari. Þannig greip bandaríski rithöfundurinn Edgar Alan Poe til þeirra í sinni einu skáldsögu, frá árinu 1838: Um ævintýri Arthurs Gordon Pym frá Nantucket. Það verk er raunar þekktast í dag sem aðalfyrirmyndin að Moby Dick eftir Hermann Melville. En eftir stendur að Jules Verne var ekki algjörlega að bulla út í loftið í Leyndardómum Snæfellsjökuls… þótt Saknussemm muni seint teljast íslenskt mannsnafn.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Mæli rosalega mikið með því að giftast þeim sem maður elskar“ Lífið Sjón og Eggers leiða hesta sína saman í nýjum vampíruhryllingi Bíó og sjónvarp Sagt að koma strax upp á bráðamótttöku Lífið Fær stóru tíðindin á sama tíma og við hin Lífið Ástfangin í eitt ár og flutt inn saman Lífið Myndaveisla: Fegurstu fljóð Vesturbæjarins blótuðu þorrann Lífið Fimmtíu milljón króna hækkun eftir umfangsmiklar endurbætur Lífið Erlend Eurovision-stjarna mætir á Söngvakeppnina Lífið Baldoni birtir myndband af tökum á umdeildu atriði Lífið Myndaveisla: Dansað fram á nótt á þorrablóti Keflavíkur Lífið Fleiri fréttir Anna Rós hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör Létu sig ekki vanta á frumsýningu Ungfrú Íslands Bókamarkaðurinn færir sig um set Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira